Níu stéttarfélög opinberra starfsmanna í Frakklandi, með tæplega 6 milljónir félagsmanna, hafa boðað til verkfallsaðgerða í dag. Ástæðan er stórfelld niðurskurðaráform stjórnvalda, líkt og Macron forseti boðaði í framboði, áður en hann var að lokum kosinn.
Stefnt er að því að skera niður 120 þúsund störf hjá franska ríkinu á næstu fjórum árum.
Macron hefur heitið því að fækka stöðugildum hjá hinum opinbera um 120.000 á kjörtímabilinu, sem lýkur 2022.
Skipulagðar hafa verið 130 kröfugöngur í Frakklandi, en stærstu aðgerðirnar verða í París, þar sem búist er við miklum áhrifum vegna verkfalla. Stofnanir kunna að loka, og samgöngukerfi að stöðvast.
Í Frakklandi búa tæplega 67 milljónir manna og tekur vinnumarkaðurinn til ríflega 25 milljóna. Umfang niðurskurðaraðgerðana þykir gríðarlega mikið í sögulegu samhengi í Frakklandi, þar sem stéttarfélög opinberra starfsmanna eru þekkt fyrir hörku í samningum og í verkfallsaðgerðum.
Skuldir ríkissjóðs Frakklands nema nú tæplega 97 prósent af árlegri landsframleiðslu, en samkvæmt markmiðum Evrópusambandsins eiga þær að vera undir 60 prósent.
Macron segir að niðurskurðurinn sé nauðsynlegur til að ná tökum á erfiðri stöðu ríkissjóðs, og skapa tækifæri fyrir komandi kynslóðir.