Alls segja 49,8 prósent landsmanna að þeir styðji ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur, sem setið hefur að völdum frá 30. nóvember 2017. Það er lægsta hlutfall sem hefur sagst styðja hana frá því að mælingar á þeim stuðningi hófust. Þegar stuðningurinn var fyrst mældur um miðjan desember mældist hann 66,7 prósent. Þetta kemur fram í nýrri könnun MMR á fylgi stjórnmálaflokka og stuðningi við ríkisstjórnina.
Samanlagt fylgi stjórnarflokkanna þriggja mælist 45,8 prósent. Mest fylgi allra hefur Sjálfstæðisflokkurinn, en 23,7 prósent landsmanna myndu kjósa hann ef þingkosningar yrðu haldnar í dag. Það er töluvert undir því sem hann fékk í kosningunum í október 2017, þegar 25,2 prósent landsmanna kusu Sjálfstæðisflokkinn. Það var næst versta útkoma hans frá upphafi.
Fylgi Vinstri grænna hefur fallið mun skarpar frá síðustu kosningum. Þá fékk flokkurinn 16,9 prósent atkvæða en mælist nú með 12 prósent fylgi. Framsóknarflokkurinn er á mjög svipuðum slóðum og hann var í fyrrahaust með 10,1 prósent fylgi.
Tveir stjórnarandstöðuflokkar styrkjast
Af stjórnarandstöðuflokkunum mælist Samfylkingin stærst með 14,6 prósent fylgi, en hún fékk 12,1 prósent í þingkosningunum í október 2017. Píratar hafa einnig bætt við sig umtalsverðu fylgi á síðustu mánuðum og nú segjast 14 prósent landsmanna að þeir myndu kjósa flokkinn ef kosið væri til Alþingis i dag, en fékk 9,2 prósent í síðustu kosningum. Miðflokkurinn mælist með 9,8 prósent fylgi en fékk 10,9 prósent í október og Viðreisn myndi fá 7,1 prósent í dag en fékk 6,7 prósent í síðustu kosningum.
Þá segjast 5,6 prósent kjósenda að þeir myndu kjósa Flokk fólksins ef kosið yrði í dag, en hann fékk 6,9 prósent atkvæða í síðustu þingkosningum.
Sami samdráttur og hjá ríkisstjórn Sigmundar
Stuðningur við ríkisstjórnina sem nú situr að völdum, og inniheldur Vinstri græn, Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk, var feikilega mikill í fyrstu mælingu í desember síðastliðnum. Engin ríkisstjórn sem setið hefur eftir hrun hefur byrjað með jafn mikinn meðvind, enda sögðust 66,7 prósent landsmanna styðja hana. Á fyrstu sex mánuðum stjórnarsamstarfsins hefur stuðningurinn hins vegar minnkað um 16,9 prósentustig.
Það er nánast sami samdráttur á og varð á stuðningi við ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, sem settist að völdum vorið 2013, á fyrsta hálfa árinu sem hún starfaði. Þá lækkaði stuðningurinn úr 59,9 prósentum í 43,1 prósent, eða um 16,8 prósentustig. Sú ríkisstjórn hraktist frá völdum eftir opinberum Panamaskjalanna vorið 2016.
Sú ríkisstjórn sem tók við, ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar, náði einungis að sitja í örfáa mánuði áður en hún sprakk vegna uppreist æru-málsins. Stuðningur almennings við þá stjórn var alltaf lítill. Þegar best lét sýndu kannanir MMR að stuðningur við hana væri 37,9 prósent en lægstur mældist hann einungis 22,5 prósent.