Íslenska hagkerfið er að öllum líkindum á leið í „mjúka lendingu“, ef til samdráttar kemur, þar sem stoðir íslenska hagkerfisins er sterkari nú en fyrir rúmum áratug, fyrir hrun fjármálakerfisins. Skuldir eru mun minni, og fjármálakerfið er bæði einfaldara, minna og með mun heilbrigðari efnahag, og getur tekist á við niðursveiflu í hagkerfinu.
Þetta segir Gylfi Zoega, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands og nefndarmaður í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands, í ítarlegri grein um stöðu efnahagsmála, í nýjustu útgafu Vísbendingar, sem kemur til áskrifenda í dag.
Í greininni rekur hann meðal annars mögulegar afleiðingar þess, að til samdráttar komi í ferðaþjónustu. „Þótt mögulegt sé að skyndilegur samdráttur verði í ferðaþjónustu þá eru góðar líkur á að hinu langa hagvaxtarferli muni ljúka með „mjúkri lendingu.“ Einnig er víst að því ljúki ekki með gjaldeyriskreppu eins og raunin var oft á árum áður. Reyndar eru líkur á að unnt verði að bregðast við niðursveiflu með vaxtalækkun vegna þess að ekki muni þurfa að beita vöxtum til þess að halda uppi gengi krónunnar vegna hins mikla viðskiptaafgangs sem verið hefur, góðrar skuldastöðu erlendis, þess að óvarðir aðilar skulda ekki í erlendum myntum og vegna þess að verðbólguvæntingar virðst hafa góða kjölfestu. Toppur uppsveiflunnar sem nú er að dala var árið 2016 en þá var hagvöxtur mældur sem hlutfallslegur vöxtur VLF 7,5%. Samkvæmt nýjustu tölum Hagstofunnar var 3,6% hagvöxtur árið 2017 og Seðlabankinn spáir 3,3% hagvexti í ár. Þannig er hagvöxtur smám saman að færast nær þeim vexti sem hagkerfið getur staðið undir til lengri tíma án þess að verðbólga vaxi. Minni hagvöxtur stafar af því að hægt hefur á vexti fjárfestingar og einkaneyslu og einnig útflutnings. Atvinnuvegafjárfesting jókst um 26,4% árið 2916, 4,3% árið 2018 og spáð er samdrætti í ár. Einnig hægir á útflutningi vöru og þjónustu sem var 10,9% árið 2016, 4,8% 5 árið 2017 og spáð er að verði 3,3% í ár. Einkaneysla jókst um 7,1% árið 2016, um 7,8% árið 2017 og spáð er að hún vaxi um 6,4% í ár og 3, 8% árið 2019. Af þessu leiðir að hagkerfið virðist stefna í mjúka lendingu þar sem vöxtur atvinnugreina er jafnari og aðrar greinar en ferðaþjónusta og sjávarútvegur fá svigrúm til þess að blómstra,“ segir meðal annars í grein Gylfa.
Hér má gerast áskrifandi að Vísbendingu.