Sigurður Páll Jónsson, þingmaður Miðflokksins, er einn flutningsmanna frumvarps um að lækka veiðigjöld, en hann hefur sjálfur verulegra hagsmuna að gæta, að því er fram kemur í Fréttablaðinu í dag.
Hann er eigandi fyrirtækisins Kári ehf., sem á aflahlutdeild að verðmæti 106 milljónir króna. Frumvarpið, sem Sigurður er flutningsmaður að, mun skila fyrirtæki hans um milljón króna afslætti á veiðigjöldum, segir í Fréttablaðinu.
Frumvarpið veitir stærstu útgerðunum hlutfallslega mestan afslátt en einnig þeim minni.
Í Fréttablaðinu er Sigurður Páll spurður að því, hvort hann telji sig ekki vanhæfan til að fjalla um þessi mál í þinginu, sem snúa að lækkun veiðigjalda, í ljósi beinna hagsmuna hans sjálfs. „Þá eru nú ansi margir vanhæfir. Eru þá ekki bændur vanhæfir að ræða búvörusamninga?“ spyr Sigurður Páll á móti, í Fréttablaðinu.