Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir grundvallarspurningarnar varðandi veiðigjöldin snúast um það, hvort það eigi að færa álagningu veiðigjalda nær í tíma, þannig að gjöldin miðist við forsendur sem séu fyrirsjáanlegri í rekstri sjávarútvegsfyrirtækja.
Þetta er haft eftir Katrínu í Fréttablaðinu í dag. Í frumvarpinu eru lögð til ný viðmið við útreikning veiðigjalda, sem lækka heildarálagningu á útgerðarfyrirtækin um á þriðja milljarða króna.
Katrín segir ennfremur að það sé óhjákvæmilegt að þingi takist á við veiðigjöldin, því annars falli heimild til innheimtu niður. „Það eru grundvallarspurningar sem við þurfum að svara á einhverjum tímapunkti á næstunni á vettvangi stjórnmálanna. Það er hvort við erum sammála því að færa álagninguna nær í tíma. Ég er sammála því. Hitt er hvort veiðigjöldin eigi að endurspegla afkomuna. Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að veiðigjöldin eigi að vera afkomutengd. En það hefur það óhjákvæmilega í för með sér að verri afkoma skilar lægri gjöldum,“ segir Katrín í viðtali við Fréttablaðið.
Í eldhúsdagsumræðum á Alþingi í gær var ríkisstjórnin harðlega gagnrýnd, og þá ekki síst frumvarpið um að lækka veiðigjöldin, en kom fram í atvinnuveganefnd. Sagði Oddný Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, að ríkisstjórnin væri sérhagsmunabandalag sem nú ætlaði sér að rétta útgerðinni hjálparhönd.