Brottfarir erlendra farþega um Keflavíkurflugvöll voru um 165 þúsund talsins í maí síðastliðnum samkvæmt talningum Ferðamálastofu og Isavia í Flugstöð Leifs Eiríkssonar eða um 19.200 fleiri en í maí á síðasta ári.
Aukningin í maí nemur 13,2% milli ára, sem er meiri hlutfallsleg aukning en aðra mánuði ársins. Sé litið til tímabilsins frá áramótum, eða janúar-maí, dregur úr aukningu í samanburði við fyrri ár. ´
Í apríl fækkaði ferðamönnum milli ára um fjögur prósent, miðað við sama mánuð í fyrra.
Bandaríkjamenn voru fjölmennastir í maí eða tæpur þriðjungur allra ferðamann og fjölgaði þeim um 18,3% milli ára. Íslensk ferðaþjónusta á því mikið undir ferðalögum Bandaríkjamanna.
Frá áramótum hafa 793.500 erlendir farþegar farið úr landi um Keflavíkurflugvöll sem er 5,6% aukning miðað við sama tímabil í fyrra.