Howard Schultz hélt blaðamannafund í byrjun vikunnar á Starbucks kaffihúsinu við Pike Place Market í Seattle, sem er það fyrsta sem opnaði undir merkjum kaffihúsa- og smásölurisans.
Þar tilkynnti hann að nú væri nóg komið af störfum fyrir Starbucks, en þessi 64 ára gamli auðjöfur og stjórnandi hefur unnið fyrir Starbucks, með stuttum hléum, frá árinu 1976.
Samfélagslegur áhugi
Hann sagði á fundinum að nú væri nóg komið, en jafnframt opnaði hann á það, þegar blaðamenn spurðu spurninga, að hann ætlaði sér að láta gott af sér leiða með öðrum hætti. Hann vildi ekki staðfesta að hann væri á leiðinni í stjórnmál, en ýmsir voru þó strax með getgátur um að svo hlyti að vera. Í umfjöllun Bloomberg segir að margt bendi til þess að hann ætli sér á svið stjórnmálanna með það að markmiði að bjóða sig fram 2020.
Schultz var orðaður við atvinnuvegaráðuneytið hjá Demókrötum í aðdraga kosninganna í nóvember 2016, en hann var einn af ráðgjöfum Baracks Obama fyrrverandi forseta í atvinnumálum og studdi Hillary Clinton gegn Donald Trump.
Hann hefur verið í fararbroddi fyrirtækja í Washington ríki, sem hafa mótmælt stefnu Trumps þegar kemur að innflytjendamálum og raunar einnig skattamálum.
Þegar Trump ákvað að hætta við þá stefnu Bandaríkjanna, að taka á móti 10 þúsund flóttamönnum í neyð frá Sýrlandi, þá brást Schultz við daginn eftir, að tilkynnti að Starbucks ætlaði sér að ráða 10 þúsund flóttamenn frá Sýrlandi í vinnu á næstu árum. Við þetta hefur hann staðið, en þúsundir hafa þegar verið ráðnir af fyrirtækinu, víða um heim.
Vöxtur Starbucks hefur verið gríðarlega mikill, ekki síst síðustu árin Fyrirtækið er nú yfir 25 þúsund sölustaði víða um heim og hefur þeim fjölgað úr 11 þúsund á undanförnum áratug. Markaðsvirði félagsins er nú 77 milljarðar Bandaríkjadala, eða sem nemur um 8 þúsund milljörðum króna, og hefur aldrei verið hærra.