Samkomulag hefur náðst um að draga nýtt frumvarp um veiðigjöld til baka, og framlengja þess í staða lögin um veiðigjöldin, og verða þau því óbreytt, samkvæmt heimildum Kjarnans.
Miklar deilur hafa verið í þinginu undanfarna daga vegna veiðigjaldafrumvarpsins, en stjórnarandstaðan sakaði ríkisstjórnarflokkanna um að reyna að þrönga veiðigjaldafrumvarpi í gegnum þingið, undir tímapressu, sem hefði þýtt töluverða lækkun að veiðigjöldunum fyrir útgerðir í landinu.
Eftir fundarhöld flokkanna hefur náðst sátt um að framlengja gildandi lög, eins og áður segir, og má búast við að Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, mæli fyrir slíku máli innan skamms.
Stjórnarandstöðuflokkarnir voru einnig með mál á oddinum, sem krafa var uppi um að ljúka þyrfti áður en farið yrði í sumarfrí.
Hjá Viðreisn var það þingsályktun um þjóðarsátt um bætt kjör kvennastétta, hjá Samfylkingu voru það breytingar á barnalögum og hjá Miðflokki er það þingsályktunartillaga um óháða, faglega staðarvalsgreiningu fyrir nýtt þjóðarsjúkrahús, sem meirihluti velferðarnefndar lagði í gær til að yrði felld.
Samkvæmt heimildum Kjarnans verða í það minnsta málin sem Viðreisn og Samfylking vildu leggja fram og ljúka, sett í forgang áður þingið fer í sumarfrí, að öllum líkindum í lok næstu viku.
Fjallað var ítarlega um stöðu mála og deilur stjórnar og stjórnarandstöðu, í fréttaskýringu á vef Kjarnans í gær.