„Hagvöxtur mældist 5,4% á fyrsta fjórðungi ársins borið saman við sama tímabil í fyrra. Þetta er töluvert meiri vöxtur en verið hefur á síðustu fjórðungum og þarf að fara aftur til 4. ársfjórðungs 2016 til að sjá hærri tölur. Hagvöxtur var borinn uppi af vexti útflutnings, aukinni fjármunamyndun og einkaneyslu. Áhrif útflutningsins voru þó mest og voru þau til jafns við samanlögð áhrif einkaneyslu og fjárfestingar.“
Þetta segir í Hagsjá Landsbankans, þar sem fjallað er nýjustu hagvaxtartölur Hagstofu Íslands.
Vöxtur einkaneyslu hefur dregist nokkuð saman milli ára, en hann var um tíu prósent í fyrra en mældist tæplega 6 prósent í byrjun þessa árs.
Íbúðafjárfesting er kröftug um þessar mundir, enda talið að byggja þurfi yfir 10 þúsund íbúðir á næstu þremur árum til að ná meira jafnvægi á húsnæðismarkaði, einkum á höfuðborgarsvæðinu.
Heildarfjárfesting jókst um 11,6% á tímabilinu milli ára og var borinn uppi af aukinni atvinnuvega- og íbúðafjárfestingu, að því er segir í hagsjánni.
Atvinnuvegafjárfesting jókst um 7,1% en íbúðafjárfesting um 38% en mjög mikill vöxtur hefur verið í íbúðafjárfestingu á síðustu misserum, og má segja að hún sé stóri áhrifaþátturinn í hagvaxtartölunum í upphafi ársins.
Opinber fjárfesting jókst hins vegar einungis um 2,2% sem er töluvert minni vöxtur en á öllum fjórðungum síðasta árs. Að meðaltali jókst fjárfesting hins opinbera um 22,6% á síðasta ári. Fjárfesting í skipum og flugvélum er liður sem hefur oft töluverð áhrif á atvinnuvegafjárfestingu. Sé litið framhjá fjárfestingu í skipum og flugvélum jókst atvinnuvegafjárfesting um 5,5% og má af því ráða að fjárfesting í skipum og flugvélum hafi aukist milli ára.
Vöruútflutningur verið að aukast
Útflutningur jókst um 10,2% sem er mesti vöxtur
hans síðan á þriðja fjórðungi ársins 2016. Þennan
mikla vöxt má rekja til 17,5% aukningar
vöruútflutnings milli ára. Sú aukning var töluvert
meiri en í þjónustuútflutningi „sem eru töluverð
tíðindi því að vöxtur þjónustuútflutnings hefur verið
meiri en vöruútflutnings á síðustu árum,“ segir í hagsjánni. Fara þarf
aftur til 2. fjórðungs 2014 til að finna meiri vöxt í
vöruútflutningi en þjónustuútflutningi. Þennan
mikla vöxt í vöruútflutningi má rekja til mikillar
aukningar í útflutningi þorsks milli ára.