Lánshæfismatsfyrirtækið S&P Global gerir ráð fyrir að gengi krónunnar muni veikjast gagnvart erlendum myntum á næstu þremur árum. Þetta kemur fram í skýrslu S&P Global um stöðu efnahagsmála á Íslandi.
Samkvæmt spá fyrirtækisins er gert ráð fyrir að krónan veikist um 13 prósent á árunum 2018 til 2021. Bandaríkjadalur kostar í dag 106 krónur og evra 125 krónur. Sé mið tekið af veikingu um þrettán prósent þá myndi Bandaríkjadalurinn kosta 120 krónur og evran 142 krónur.
Ástæðan fyrir þessari spá er að fyrirtækið gerir ráð fyrir litlum vexti í ferðaþjónustunni á næstu árum, ekki síst vegna þess hvernig verðlagið hefur þróast á undanförnum árum, með styrkingu krónunnar gagnvart helstu viðskiptamyntum.
Í greiningu fyrirtækisins á stöðu mála á Íslandi, segir enn fremur að staða Íslands sé sterk, en samt séu ákveðnir þættir viðkvæmir. Þannig hefur fyrirtækið áhyggjur af því að samkeppnishæfni Íslands muni skaðast ef það verður samið um miklar launahækkanir á næstu misserum, í þeirri lotu kjarasamninga sem framundan eru.
Auk þess er að það mat fyrirtækisins að næstu ár muni einkennast af kólnun í hagkerfinu, eftir mikinn uppgang og næstum ofhitnun, en samkvæmt spá fyrirtækisins verður hagvöxtur á næstu þremur árum á bilinu 2 til 3 prósent.
S&P Global staðfesti í gær A/A-1 lánshæfiseinkunnir ríkissjóðs fyrir langtíma- og skammtímaskuldir í innlendum og erlendum gjaldmiðlum með stöðugum horfum. Það sama gerði Fitch.