„Vegna fordæmalausrar framgöngu oddvita Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi í nýliðnum sveitarstjórnarkosningum lýsir aukaaðalfundur fulltrúaráðs Sjálfstæðisfélaganna í Vestmannaeyjum fullu vantrausti á 1. þingmann Suðurkjördæmis, Pál Magnússon. Fulltrúaráðið getur ekki litið á þingmanninn sem trúnaðarmann Sjálfstæðisflokksins og óskar eftir fundi með forystu flokksins vegna þeirrar alvarlegu stöðu sem upp er komin.“
Þannig hljómar ályktun Sjálfstæðisfélagsins í Vestmannaeyjum frá því í gærkvöld, en þar var vantrausti lýst á Pál Magnússon. Mikil reiði er í röðum Sjálfstæðismanna í Eyjum vegna sveitarstjórnarkosninganna í vor, en Páll studdi ekki opinberlega framboð Sjálfstæðisflokksins í Eyjum.
Klofningsframboð úr Sjálfstæðisflokknum, Fyrir Heimaey, vann mikinn sigur í kosningunum og myndaði meirihluta í bæjarstjórn með Eyjalistanum. Sjálfstæðisflokkurinn fór þar með í minnihluta.
Jarl Sigurgeirsson, formaður fulltrúaráðsins, segir í viðtali við mbl.is að fundurinn hafi verið haldinn til að taka til í ráðinu. „Við kjósum í fulltrúaráðið en hann var ekki á þeim lista sem var nú borinn upp til atkvæða. Það samþykktu allir fundarmenn að hafa hann ekki á listanum. Ég held að þetta sé í fyrsta skipti í sögunni sem þingmaður úr heimabænum er ekki í fulltrúaráði, enda er þetta eflaust í eina skipti í sögu stjórnmála sem oddviti flokksins styður ekki sinn flokk í sveitarfélaginu,“ segir Jarl.