Gylfi Zoega, prófessor í hagfræði og nefndarmaður í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands, segir að verndartollarnir sem Donald Trump Bandaríkjaforseti talar nú sem mest fyrir, gætu hjálpað honum að ná endurkjöri.
Þeir geti hjálpað þeim svæðum í Bandaríkjunum þar sem iðnaður hefur farið hnignandi undanfarna áratugi, en þó einungis til skamms tíma.
Betri leið til að bæta þeim hópum upp fyrir tjónið sem alþjóðavædd viðskipti hafa haft í för með sér, væri að efla menntun þeirra.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í ítarlegri grein Gylfa í Vísbendingu, sem kemur til áskrifenda á föstudaginn, en Gylfi er fastur penni í ritinu og skrifar í það ítarlegar greinar tvisvar sinnum í mánuði.
Í greininni fjallar hann um verndartolla í hagsögulegu samhengi, en fyrirsögn hennar er; Um fars og harmleiki.
„Verndartollar bæta hag sumra innlendra atvinnugreina á kostnað annarra sem þá verða fyrir barðinu á hærri tollum annarra ríkja. Unnt er að nota tolla á fyrstu stigum hagþróunar til þess að vernda litlar en vaxandi atvinnugreinar (e. infant industry argument) en þegar til lengri tíma er litið þá draga tollar úr hagkvæmni sérhæfingar og milliríkjaviðskipta, nokkuð sem hefur verið þekkt allar götur frá því David Ricardo setti fram hugmyndir sínar um hlutfallslega yfirburði. Verndartollar kreppuárana á fjórða áratuginum urðu þannig til þess að draga úr umfangi utanríkisviðskipta og minnka velferð. Þannig hefur verið reiknað út að alþjóðaviðskipti hafi dregist saman um 8% vegna tollahækkana og um 6% vegna annarra viðskiptahindrana á þeim áratugi.
Það sem tollar Bandaríkjanna munu væntanlega gera er að bæta hag eigenda fyrirtækja í stál- og áliðnaði og mögulega fjölga störfum þar en á móti verða aðrar greinar fyrir barðinu á verndartollum viðskiptalandanna, t.d. landbúnaður. Það er kannski ekki tilviljun að Trump naut mikils stuðnings kjósenda í þeim borgum þar sem iðnaður hafði þrifist en dregist saman á liðnum áratugum. Þannig geta verndartollarnir hjálpað honum að ná endurkjöri.
Nú er ljóst að starfsfólk í ýmsum atvinnugreinum, t.d. Bandarískum iðnaði, hefur tapað á alþjóðaviðskiptum á meðan aðrir, t.d. þeir sem starfa í fjármálastofnunum, hafa hagnast. En betri leið til þess að bæta hinum fyrrnefndu upp tjónið væri að efla menntun þeirra einstaklinga sem ganga með skarðan hlut af borði og barna þeirra svo að þeir geti nýtt krafta sína í öðrum atvinnugreinum. Þau mistök að bregðast ekki við fátækt í gömlu iðnaðarhéruðunum er ein ástæða vinsælda og kosningar Donalds Trump í embætti forseta,“ segir meðal annars í grein Gylfa.
Hægt er að gerast áskrifandi að Vísbendingu hér.