Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,62% milli mánaða í júní samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofu. Með því hækkaði ársverðbólgan úr 2% í 2,6%. Ársverðbólgan er því komin yfir yfirlýst verðbólgumarkmið Seðlabankans, í annað skiptið á fjórum árum.
Flugferðir dýrari
Samkvæmt markaðspunktum Arion banka voru verðbólguspár greiningaraðila nokkuð undir mælingu Hagstofu, eða á bilinu 0,3-0,4%. Þá reyndust mælingar á verði húsnæðis og flugfargjöldum til útlanda helst vera yfir væntingum. Flugfargjöld til útlanda hækkuðu um 15,2%, nær þrefalt meira en búist var við. Sömuleiðis hækkaði fasteignaverð lítillega milli mánaða, en það hefur staðið í stað og lækkað nokkuð á undanförnum misserum.
Arion nefnir einnig áhrif innfluttra vara á verðbólguna, en hún hefur síðustu árin dregið neysluverð niður á Íslandi samhliða því sem fasteignamarkaðurinn hefur haft jákvæð áhrif á verð. Áhrif beggja þessara þátta virðast hins vegar hafa dvínað nokkuð nýlega með hærri olíuverði og kulnun á fasteignamarkaðnum.
Húsaleigan stríðir Landsbankanum
Samkvæmt greiningu Hagfræðideildar Landsbankans var stærsta misræmið milli spár bankans og mælingar Hagstofu í liðnum reiknuð húsaleiga. Þar var hækkun á húsaleigu 1,1% milli mánaða, sem var þreföld á við spá bankans. Einnig hafði hækkun á flugfargjöldum og heimsmarkaðsverði á olíu haft áhrif, sem og hækkun fasteignaverðs.
Þetta er í annað skiptið á rúmum fjórum árum sem tólf mánaða verðbólga hefur farið yfir 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabankans, en hún hefur haldist lág frá fyrri part ársins 2014 samhliða gengishækkun krónunnar og lækkandi heimsmarkaðsverði á olíu.
Á síðustu tíu mánuðum hefur olíuverð hins vegar hækkað nokkuð hratt og verð á innfluttum vörum sömuleiðis. Raungengi krónunnar hefur þó haldist tiltölulega stöðugt á sama tímabili, þrátt fyrir mikla veikingu á fyrri hluta síðasta sumars.
Nýbirtar tölur eru í nokkru samræmi við spár Seðlabankans um verðbólgu fyrir annan ársfjórðung, en í nýjasta hefti Peningamála sem kom út í maí spáði bankinn því að hún yrði að meðaltali 2,4% þennan ársfjórðung, en aukist upp í 2,9% á síðasta ársfjórðungi. Þá var gert ráð fyrir því að verðbólga færi minnkandi að verðbólgumarkmiðinu á næsta ári og haldist í grennd við það út spátímann.