Til þess að bregðast við áhyggjum Samkeppniseftirlitsins af því að kaup N1 á Festi muni raska alvarlega samkeppni á eldsneytismarkaði hefur olíufélagið lagt til að sameinað félag selji frá sér vörumerkið Dæluna, sem N1 kynnti fyrst til sögunnar sumarið 2016, og þrjár eldsneytisstöðvar. Þetta kemur fram í Féttablaðinu í morgun.
Segir jafnframt að til viðbótar hafi forsvarsmenn N1 boðist til þess að skuldbinda olíufélagið til þess að selja þeim sem vilja eldsneyti í heildsölu á viðskiptalegum grunni og auka jafnframt aðgengi að birgðarými hjá Olíudreifingu, sem félagið á 60 prósenta hlut í.
Samkeppniseftirlitið kallaði í gær eftir sjónarmiðum almennings um sáttatillögur N1. „Eftirlitið hefur þegar látið í ljós það álit sitt að kaup N1, sem er stærsta eldsneytisfélag landsins, á Festi, næststærsta smásölufélagi landsins en það rekur meðal annars verslanir undir merkjum Krónunnar og Elko, muni að öðru óbreyttu hafa í för með sér „skaðleg“ áhrif á samkeppni sem leitt geti til tjóns fyrir bæði keppinauta félaganna og neytendur. Ef eftirlitið fellst ekki á tillögur N1 mun það ógilda kaupin,“ segir í fréttinni.
Samkeppniseftirlitið óskar eftir því að sjónarmið berist eigi síðar en 4. júlí næstkomandi og er aðilum gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.
Kjarninn sagði frá því í október síðastliðnum að N1 ehf., sem rekur eldsneytisstöðvar út um allt land og er skráð í Kauphöll Íslands, hefði gengið frá kaupum á öllu hlutafé í Festi, móðurfélagi Krónunnar, Elko, Kjarval og Kr auk þess sem félagið rekur Bakkann vöruhótel. Festi á auk þess 18 fasteignir sem eru annað hvort í leigu til verslana félagsins eða til þriðja aðila og er heildarstærð fasteignanna um 71.500 fermetrar.
Fréttablaðið greinir frá að hlutabréf í olíufélaginu hafi fallið um 5,1 prósent í verði í 330 milljóna króna viðskiptum í Kauphöll Íslands í gær, daginn eftir að félagið greindi frá því að endanleg niðurstaða Samkeppniseftirlitsins myndi ekki liggja fyrir í þessum mánuði, líkt og vonir stóðu til. Félagið hafi þess í stað sagt „ófyrirséð“ hvenær rannsókn eftirlitsins lyki og hafi auk þess bent á að vegna tímafresta í kaupsamningi N1 og Festar kynni að þurfa að koma til breytinga á samningnum.
„Í upphaflegu samkomulagi félaganna, sem þau skrifuðu undir í júlí í fyrra, er heildarvirði Festar, það er virði hlutafjár og skulda, 37,9 milljarðar króna en endanlegt kaupverð mun meðal annars ráðast af afkomu smásölufélagsins,“ segir í fréttinni.
Hægt er að lesa frekar um málið í Fréttablaðinu.