Í gær tóku gildi uppsagnir tólf ljósmæðra, þriggja á fæðingarvakt og níu á meðgöngu- og sængurlegudeild Landspítala. Uppsagnirnar eru afleiðing um tíu mánaða kjaradeilu Ljósmæðrafélags Íslands og ríkisins. Þetta kemur fram í frétt Morgunblaðsins í dag en þar er rætt við sex þessara tólf ljósmæðra. Allar segja þær það hafa verið afar erfitt að kveðja starfið.
Þær segjast hafa vonast til að samkomulag myndi nást áður en uppsagnirnar tækju gildi en engin þeirra sér eftir því að hafa sagt upp starfi sínu. Með uppsögnunum vonist þær til þess að málið komist á hreyfingu.
„Við viljum að ráðamenn fari að beita sér í málinu. Bjarni Benediktsson heldur um veskið en ég skelli samt mestri skuld á forsætisráðherrann, Katrínu Jakobsdóttur, sem hefur valdið. Hún hefur ekki staðið sig,“ segir María Rebekka Þórisdóttir, ein ljósmæðranna sem létu af störfum í gær, í samtali við Morgunblaðið.
Auk uppsagnanna var yfirvinnubann ljósmæðra samþykkt í gær, með um 90 prósent atkvæða, en það mun taka gildi um miðjan mánuðinn og er ætlað til að knýja á um bætur í kjarabaráttunni. Bannið mun gilda á öllum heilbrigðisstofnunum hér á landi, að undanskildum heilsugæslum, segir í fréttinni.
Ljóst er að uppsagnirnar og yfirvinnubannið munu hafa mikil áhrif á starfsemi viðkomandi deilda. Í samtali við Morgunblaðið segir Hilda Friðfinnsdóttir, yfirljósmóðir meðgöngu- og sængurlegudeildar Landspítala, að þær hafi undirbúið sig fyrir þetta síðustu tíu daga en þrátt fyrir það hafi hún vonast til, alveg fram á síðustu stundu, að þetta myndi leysast.
Í kjölfar uppsagnanna er ráðgert að boðað verði til fundar í velferðarnefnd Alþingis á þriðjudag.