Listeríufaraldur, sem hefur geisað um Austurríki, Danmörku, Finnland, Svíþjóð og Bretland frá árinu 2015, er talinn vera vegna frosinna maísbauna frá smásölufyrirtækinu Coop auk annars frosins grænmetis. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu Matvælaeftirlits Evrópu sem birt var á mánudaginn.
Alls höfðu 47 manns sýkst og níu manns dáið í faraldrinum í síðasta mánuði, en sérfræðingar á vegum matvælastofnunarinnar leituðu upptaka hans í mars á þessu ári. Með hjálp heilraðgreiningar á erfðamengi (e. Whole genome sequencing) komust sérfræðingarnir að þeirri niðurstöðu að orsök faraldursins væru líklega frosnar maísbaunir sem framleiddar væru í tveimur verksmiðjum Ungverjalandi fyrir smásölurisann Coop.
Síðasta föstudag innkallaði ungverska matvælastofnunin allar frosnar grænmetisvörur sem framleiddar voru í umræddum verksmiðjum auk þess sem markaðssetning á vörunum yrði bönnuð. Á mánudaginn birti svo matvælaeftirlit Evrópu tilkynningu um að bakterían sem veldur listeríu hafi fundist í öðrum frosnum grænmetisvörum sem framleiddar voru í sömu verksmiðjum.