Sigurbergur Kárason‚ svæfinga- og gjörgæslulæknir á Landspítala Hringbraut, segir að nauðsynlegt sé að bæta aðstöðu og húsnæði gjörgæsludeildanna nú þegar. „Í augnablikinu er mikilvægast að bæta mönnun hjúkrunarfræðinga en þar verða stjórnvöld og Landspítali að grípa til allra tiltækra úrræða. Mögulega þarf að stokka upp starfsemina, þróa nýjar deildir, byggja við og breyta og áfram mætti telja.“
Þetta kemur fram í grein sem birtist í Læknablaðinu fyrir helgi.
Sigurbergur greinir frá því að álagið á gjörgæsludeildum Landspítala aukist með ári hverju. Starfsfólkinu reynist sífellt örðugara að veita sjúklingum tilætlaða þjónustu og úrræðin séu fá. Á Landspítala eru tvær gjörgæsludeildir, ein á Hringbraut og önnur í Fossvogi. Á hvorri deild er pláss fyrir ellefu sjúklinga. Hann bendir á að undanfarinn áratug hafi þó einungis verið hægt að manna sjö pláss í hvoru húsi, eða samtals fjórtán. Rúmanýting undanfarin ár hafi að jafnaði verið 80 prósent sem þýðir að deildirnar séu yfirfullar langtímum saman. Og nú hafi starfsfólk verið nauðbeygð að fækka plássum í sex í hvoru húsi, eða í tólf samtals, vegna skorts á hjúkrunarfræðingum.
Niðurfelldum hjartaaðgerðum fjölgar ár frá ári
„Síðustu 5 ár hefur bæði sjúklingum og legudögum fjölgað á báðum gjörgæsludeildunum. Mikill meirihluti þeirra er vegna bráðainnlagna. Há rúmanýting bitnar óhjákvæmilega á valkvæðum innlögnum og kemur fram í niðurfellingum aðgerða með tilheyrandi álagi og óhagræði fyrir sjúklinga. Því fylgir veruleg fjárhagsleg sóun svo og truflanir á sjúklingaferlum innan spítalans. Þannig hefur niðurfelldum hjartaaðgerðum fjölgað ár frá ári, voru 48 árið 2017, eða 36 prósent allra hjartaaðgerða. Dæmi er um að hjartaaðgerð tiltekins sjúklings hafi verið frestað 6 sinnum. Til viðbótar hefur erlendum ríkisborgurum á gjörgæslu fjölgað umtalsvert, eða um rúmlega 150 prósent síðustu 5 ár, og gjörgæsludögum þeirra um meira en 200 prósent,“ skrifar Sigurbergur.
Hann segir jafnframt að fjöldi gjörgæslurúma endurspegli að einhverju leyti innra skipulag heilbrigðiskerfisins og sjúkrahúsa, það er hvort þar séu vöknunardeildir þar sem taka má á móti sjúklingum í öndunarvél í skamman tíma og hágæsludeildir eða millistigsdeildir þar sem hægt er að sinna sjúklingum sem þurfa mikla umönnun eða eftirlit en ekki fulla gjörgæslumeðferð. Slíkar deildir hafi ekki verið þróaðar hér til fulls.
Nú séu eingöngu mönnuð tólf gjörgæslurúm á Landspítala og þrjú á Akureyri og þar með sé fjöldi gjörgæslurúma á hverja 100.000 landsmenn 4,4, miðað við að þeir séu 340.000. Þá sé ekki gert ráð fyrir þeim fjölda ferðamanna sem heimsækir landið og þarf á gjörgæsludvöl að halda. Á síðasta ári hafi á hverjum tíma legið erlendur ferðamaður í einu gjörgæslurúmi. Samkvæmt því séu Íslendingar undir fjórum rúmum á hverja 100.000 þúsund íbúa.
Ísland sé því meðal þeirra landa í Evrópu sem fæst gjörgæslurúm hafa.
Skortur á rúmum auka líkur á að sjúklingum farnist verr
Í greininni kemur fram að erlendar rannsóknir bendi til að þegar skortur er á gjörgæslurúmum og nýting yfir 80 prósent hafi það áhrif á ákvarðanir um umfang meðferða og líkur aukist á að sjúklingum farnist verr. Jafnframt geti slíkar aðstæður haft áhrif á möguleika á að meðhöndla hugsanlega líffæragjafa og dregið úr fjölda þeirra. Samkvæmt erlendum rannsóknum virðist æskilegast að nýtingarhlutfallið fari að meðaltali ekki yfir 70 til 75 prósent.
„Ekki er öll sagan sögð. Í úttekt innan Landspítala, frá ágúst 2017, er bent á hve óhentugt húsnæði gjörgæsludeildanna er, illmögulegt sé að aðlaga það breyttri starfsemi og stærðir flestra rýma séu undir viðmiðunarmörkum. Þannig er erfitt að koma fyrir nauðsynlegum tækjabúnaði við rúm sjúklings, þrengsli eru á fjölbýlum og fá einbýli sem gera sýkingavarnir illkleifar og viðveru aðstandenda erfiða. Augljóst er af þróun starfseminnar seinustu ár og göllum á húsnæðinu að ekki verður unað við óbreytt ástand í sama húsnæði þar til nýr meðferðarkjarni er byggður,“ skrifar Sigurbergur.
Hægt er að lesa greinina í heild sinni á vef Læknablaðsins.