Fleiri íbúar höfuðborgarsvæðisins 18 ára og eldri eru hlynntir sameiningu sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu en andvígir henni. Mjótt er hins vegar á mununum, en viðhorf eru mismunandi eftir aldri, búsetu og stjórnmálaskoðana. Þetta kemur fram í nýrri könnun Maskínu sem birtist í dag.
Samkvæmt könnuninni eru 51,6% borgarbúa á fullorðinsaldri hlynntir sameiningu sveitarfélaganna höfuðborgarsvæðisins, þ.e. Reykjavíkur, Kópavogs, Hafnarfjarðar, Garðabæjar, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness. 48,4% eru hins vegar andvíg sameiningu.
Sé viðmælendum könnunarinnar flokkað eftir búsetu kemur í ljós að Reykvíkingar vilja sameiningu fremur en íbúar nágrannasveitarfélaganna, en Garðbæingar og Seltirningar eru andvígastir henni. Þá eru karlar hlynntari sameiningu en konur.
Yngsti aldurshópur könnunarinnar er andvígastur sameiningu, en meðal 18-29 ára borgarbúa vilja einungis 36,9% sameina sveitarfélögin. Þess utan breytist afstaða til sameiningar lítið milli aldurshópum, en í öllum hinum er meirihluti hlynntur sameiningu.
Talsverður munur er á viðhorfi eftir stjórnmálaskoðunum, en mikill meirihluti þeirra sem myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn er andvígur sameiningu. Á hinn bóginn er stór meirihluti þeirra sem myndu kjósa Pírata hlynntur sameiningu.
Þegar viðmælendur könnunarinnar voru spurðir um hvaða sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu þau vildu helst að sameinist nefndu flestir öll sveitarfélögin, eða um 47% allra sem voru hlynntir sameiningu. Næstvinsælasta tillagan var sameining Reykjavíkur og Seltjarnarness, en 14% hlynntra nefndu hana.
Svarendur könnunarinnar voru 500 talsins og komu úr Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks sem dregin eru með slembivali úr þjóðskrá og svarar á netinu.