Hlutdeild fjármálastarfsemi af heildarlaunum hefur fallið um tæp 40% á síðasta áratug. Á sama tíma hefur hlutdeild heildarlauna í rekstri veitinga-og gististaða hækkað um rúman þriðjung. Þetta kemur fram í greiningu á nýrri vísitölu Hagstofu.
Vísitalan, sem mæla á heildarlaun Íslendinga, var gefin út í fyrsta skipti í dag, en samkvæmt Hagstofu miðar hún að aukinni upplýsingagjöf um íslenskan vinnumarkað. Mæling Hagstofu á að varpa ljósi á þróun launa þar sem að breytingar á samsetningu vinnuafls og vinnutíma hafa áhrif.
Í stuttu máli byggir vísitala heildarlauna á öllum greiddum launum deilt með heildarfjölda greiddra stunda eftir atvinnugreinum, en þannig sýnir hún launaþróun sem endurspeglar marga þætti sem almenn launavísitala nær ekki til, svo sem verðbreytingu vinnustundar og breytt hlutfall vinnuafls með há eða lág laun.
Sveiflukenndari en almenn launavísitala
Vísitalan er frábrugðin almennri launavísitölu þar sem hún tekur tillit til margra árstíðabundinna þátta, svo sem yfirvinnu, kaupauka og árlegra eingreiðslna. Almenn launavísitala byggir hins vegar á breytingum reglulegra launa þar sem hvorki er tekið tillit til tilfallandi yfirvinnu né óreglulegra greiðslna.
á fyrsta ársfjórðungi 2018 var árshækkun heildarlauna á greidda stund 4,9%. Hækkunin var nokkuð misjöfn eftir atvinnugreinum, en starfsmenn í vatns-og fráveitu auk gisti-og veitingareksturs hækkuðu mest, eða um 7,6% og 6,5%.
Minna um fjármálastarfsemi, meira um gisti-og veitingarekstur
Sé litið tíu ár aftur í tímann sést að hlutdeild heildarlauna eftir atvinnugreinum hefur breyst töluvert á tímabilinu 2008-2017. Stærsta breytingin er í fjármála-og vátryggingastarfsemi, en um það bil 10 prósent allra heildarlauna voru frá þeirri atvinnugrein árið 2008. Nú er hlutdeild greinarinnar einungis 6 prósentur og hefur hún því lækkað um 40%. Á sama tíma hefur hlutdeild launa í gisti-og veitingarekstri hækkað um rúman þriðjung, eða úr tæpum 6 prósentum í 8 prósent.