Ríkisstjórnarfundur verður haldinn að Langaholti í Snæfellsbæ í dag, mánudaginn 16. júlí. Að loknum ríkisstjórnarfundi mun ríkisstjórnin funda með fulltrúum sveitarstjórna á Vesturlandi.
Á þeim fundi verður meðal annars farið yfir áherslur ríkisstjórnarinnar í stjórnarsáttmálanum og mál sem rædd voru á ríkisstjórnarfundinum og tengjast byggðamálum. Þá munu fulltrúar sveitarstjórna á svæðinu fara yfir stöðu mála og kynna sín helstu áherslumál.
Í kjölfarið verður haldinn blaðamannafundur sem áætlað er að hefjist kl. 14:30.
Í tilefni 100 ára fullveldisafmælisins á þessu ári verður einnig á morgun þingfundur og á miðvikudag, 18. júlí, verður hátíðarfundur Alþingis að Lögbergi á Þingvöllum og hefst sá fundur kl. 14.
Tvö þingmál verða tekin fyrir á þessum dögum, annars vegar tillaga formanna stjórnmálaflokkanna um verkefni í þágu barna og ungmenna, svo um rannsóknir er stuðli að sjálfbærni auðlinda hafsins og nýtt hafrannsóknaskip. Jafnframt hefur forsætisnefnd lagt fram tillögu um útgáfu tveggja rita í samvinnu við Hið íslenska bókmenntafélag, um Þingvelli í íslenskri myndlist og um bókmenntasögu Íslands.
Þingfundir á þriðjudag verða tveir. Á fyrri fundinum verður mælt fyrir báðum tillögunum (fyrri umræða), en á seinni fundinum verður tillaga forsætisnefndar afgreidd, svo og samþykkt um hlé á þingstörfum frá 18. júlí fram til 11. september
Hátíðarfundurinn á Þingvöllum hefst kl. 14 að Lögbergi. Á þeim fundi fer fram síðari umræða um tillögu formanna flokkanna og munu þeir allir átta tala á hátíðarfundinum. Tillagan verður afgreidd þar með atkvæðagreiðslu.