Pia Kjærsgaard, fyrrverandi formaður Danska þjóðarflokksins og nú forseti danska þingsins, mun á morgun flytja ræðu á Hátíðarfundi Alþingis sem haldinn er á Þingvöllum til að minnast 100 ára afmælis fullveldisins.
Hver er Pia Kjærsgaard?
Pia Kjærsgaard er einn stofnenda Danska þjóðarflokksins og leiddi flokkinn á árunum 1995 til 2012. Hún er einn þekktasti stjórnmálamaður í Danmörku í dag, og hefur talað hart gegn fjölmenningu og innflytjendum og íslam sérstaklega.
Árið 2001 skrifaði Kjærsgaard í fréttabréf flokkins að múslimar væru lygarar, svindlarar og svikarar. Hún var kærð fyrir þessi ummæli en ekki ákærð af yfirvöldum. Ári síðar var hún sektuð fyrir að hóta konu með piparúða, sem að auki var brot gegn dönskum vopnalögum. Kjærsgaard sagði sér til varnar að hún hafi upplifað sér ógnað og talaði í kjölfarið fyrir breytingu á lögunum, svo eitthvað af afrekum hennar séu nefnd. Þá hefur hún beitt sér fyrir því að lokað sé fyrir útsendingar arabískra sjónvarpsstöðva í Danmörku, þar sem þær flyttu hatursáróður og vildi að öllum innflytjendum sem gerst hefðu brotlegir við dönsk lög yrði vísað úr landi.
„Með öllum hætti viðeigandi“
Helgi Bernódusson skrifstofustjóri Alþingis segir í samtali við Kjarnann, aðspurður um hvernig það komi til að Kjærsgaard sé fengin til þess að vera hátíðarræðumaður á fundinum á morgun, að það sé einfaldlega skýrt með sambandslagasamningnum milli Íslands og Danmerkur sem undirritaður var 18. júlí fyrir 100 árum síðan. Ákveðið hafi verið að Kjærsgaard, sem forseti danska þingsins, kæmi hingað til lands af þessu tilefni fyrir hönd danska þjóðþingsins.
„Það er með öllum hætti viðeigandi að forseti danska þingsins sé hérna af þessu tilefni. Síðan er áformað að drottningin komi hingað 1. desember,“ segir Helgi en frumvarpið til sambandslaganna sem undirritað var 18. júlí 1918 tók gildi þann 1. desember sama ár.
Misjafnlega tekið
Ýmsir hafa tjáð sig um komu Piu og væntanleg ræðuhöld hennar á hátíðarfundinum.
Viðar Þorsteinsson framkvæmdastjóri Eflingar hefur sent Steingrími J. Sigfússyni forseta Alþingis tölvupóst þar sem hann kemur á framfæri mótmælum og óskað eftir upplýsingum um hvernig ákvörðunin um val Kjærsgaard fór fram.
Til: Steingríms J. Sigfússonar, forseta Alþingis Erindi: Mótmæli og ósk um upplýsingar varðandi þá ákvörðun að velja...
Posted by Vidar Thorsteinsson on Tuesday, July 17, 2018
Þórunn Ólafsdóttir, sem starfað hefur mikið með flóttamönnum, bæði hér á landi og erlendis og var auk þess handhafi mannréttindaverðlauna Reykjavíkur, tjáir sig einnig um málið á samfélagsmiðlum en á Twittersíðu sinni segir Þórunn að með því að gera hana að hátíðarræðumanni sé verið að normalísera óásættanleg viðhorf og hegðun.
Á morgun flytur valdamikil talskona fordóma og mannhaturs hátíðarræðu á Þingvöllum. Hvers vegna er verið að gefa svona einstaklingum meira pláss en þeir hafa nú þegar?
— Þórunn Ólafsdóttir (@Thorunnolafsd) July 17, 2018
Nákvæmlega þannig normalíserum við fullkomlega óásættanleg viðhorf og hegðun sem við ættum að hafna með öllu.
Egill Helgason sjónvarpsmaður fjallar um Piu og Hátíðarfundinn á bloggsíðu sinni þar sem hann segir Kjærsgaard varpa skugga á hátíðina og vera stjórnmálamann af því tagi sem við viljum helst sjá sem minnst af.
Grímur Atlason fyrrverandi sveitarstjóri og eiginmaður Helgu Völu Helgadóttur alþingismanns segir það niðurlægjandi að velja Kjærsgaard sem hátíðarræðumann, hún standi fyrir allt það sem hann fyrirlíti mest í þessum heimi.
Það er nöturlegt að hugsa til þess að hátíðarræða erlendra ríkja vegna 100 ára afmælis fullveldisins skuli vera flutt af...
Posted by Grímur Atlason on Tuesday, July 17, 2018