Dagur B. Eggertsson borgarstjóri greindist með fylgigigt nú á dögunum. Hann segist geta búist við því að vera í sterkri lyfjameðferð í allt að tvö ár. Þetta kemur fram í ítarlegu viðtali Fréttablaðsins við Dag í morgun.
Í viðtalinu segir Dagur gigtina hafa komið í kjölfar sýkinga sem hann fékk í kviðarholið síðasta haust, en hann hafi byrjað að finna fyrir einkennum eftir að hafa meiðst fyrir mánuði síðan. Þá meiddist Dagur á fæti eftir að hafa rekið ristina sína í rör, en í kjölfarið komu upp bólgur annars staðar á líkamanum og var hann greindur með fylgigigt.
Samkvæmt Degi flakkar gigtin milli liða og getur lagst á ýmis líffæri. Hann sé búinn að vera í miklum rannsóknum og meðhöndlun eftir greiningu og segist sjálfur vera kominn í „fallbyssumeðferð“ til að reyna að slá hana niður. Aðspurður segir hann þessa tegund af sjúkdómnum geta læknast, en ákveðinn hluti þeirra sem fá þetta sé með þetta krónískt.
Hins vegar segir Dagur sjúkdóminn ekki vera lífshótandi, þótt hann sé hvimleiður og honum geti fylgt bólgur og auðvitað verkir og hreyfiskerðing. Hann sé á sterkum lyfjum og segir mögulegt að munu ná stjórn á einkennunum á einhverjum mánuðum. „En ég get alveg búist við því að þurfa að vera á þessum sterku lyfjum í að minnsta kosti eitt og hálft eða tvö ár,“ segir borgarstjórinn.