Fjögur ráðuneyti vinna nú að gerð viðbragðsáætlunar vegna hugsanlegra áfalla í rekstri mikilvægra atvinnufyrirtækja sem gætu kallað á viðbrögð af hálfu stjórnvalda. Þar undir heyra flugfélög en miklar sviptingar hafa orðið að undanförnu í rekstri íslensku flugfélaganna, Icelandair og WOW Air.
Frá þessu var greint í fréttum Stöðvar 2 í kvöld.
Rekstur flugfélaganna skiptir miklu máli fyrir íslenska þjóðarbúið, enda koma um 99 prósent erlendra ferðamanna í gegnum Keflavíkurflugvöll og stór hluti þeirra með Icelandair og WOW Air.
Í fréttum Stöðvar 2 var vitnað til svara frá Sigurbergi Björnssyni, skrifstofustjóra í samgönguráðuneytinu, sem sagði að fjögur ráðuneyti kæmu að gerð viðbragðsáætlunar vegna mögulegs vanda flugfélaga. „Ekki hefur verið gripið til aðgerða til að bregðast sérstaklega við hugsanlegum kerfisáhrifum vegna flugrekstrar. Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið, fjármála- og efnahagsráðuneytið, forsætisráðuneytið og atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið vinna að gerð viðbragðsáætlunar vegna hugsanlegra áfalla í rekstri mikilvægra atvinnufyrirtækja sem gætu kallað á viðbrögð af hálfu stjórnvalda. Tilgangur hópsins er ekki að skoða flugfélög eða ferðaþjónustu sérstaklega, né heldur einstaka atburði eða horfur. Hópurinn er að skoða breyttan viðbúnað vegna þeirra breytinga sem orðið hafa á íslensku atvinnulífi og gjaldeyrissköpun, m.a. í tengslum við samgöngur, ferðaþjónustu og nýsköpun. Til dæmis eru fjarskipta- og veitufyrirtæki, flugfélög, skipafélög og fjarskiptafélög svo þýðingarmikil í íslensku efnahagslífi að tímabundin röskun á þjónustu þeirra hefur mikil áhrif á notendur og rekstur annarra aðila með efnahagslegu tjóni fyrir samfélagið allt. Það þarf því að greina ítarlega og undirbúa viðbragðsáætlun ef áföll komi upp í rekstri fyrirtækja sem gætu kallað á viðbrögð af hálfu stjórnvalda með skömmum fyrirvara,“ sagði Sigurbergur í svari við spurningum Stöðvar 2.
Ferðaþjónustan hefur orðið að burðarstólpa í íslenska hagkerfinu á undanförnum árum, en til landsins í fyrra komu um 2,7 milljónir erlendra ferðamanna. Til samanburðar voru þeir innan við 500 þúsund 2010.
Að undanförnu hafa rekstrarskilyrði flugfélaga versnað, meðal annars vegna hás olíuverðs og harðnandi samkeppni. WOW Air tapaði 2,5 milljarði í fyrra, og þá lækkaði Icelandair afkomuspá sína og verðmiðinn á fyrirtækinu hrundi á markaði í kjölfarið. Markaðsvirði Icelandair er nú um 40 milljarðar, en eigið fé þess er tæplega 60 milljarðar króna. Verðið hefur lækkað um meira en 75 prósent á undanförnum árum.