Stjórn Arion banka hefur samþykkt að leggja fyrir hluthafafund bankans, sem fram fer í september, að greiða 10 milljara króna í arð til hluthafa fyrir lok þriðja ársfjórðungs, en það samsvara um 5 krónum á hvern hlut í bankanum.
Þetta kom fram í tilkynningu bankans til kauphallar í dag, þar sem fjallað var um uppgjör bankans.
Hagnaður samstæðu Arion banka á öðrum ársfjórðungi 2018 nam 3,1 milljarði króna samanborið við 7,1 milljarð króna á sama tímabili 2017, og því dróst hagnaðurinn milli ára saman um rúmlega 50 prósent.
Arðsemi eigin fjár var aðeins 5,9% á öðrum ársfjórðungi samanborið við 13,0% á sama tímabili árið 2017. Slík arðsemi, 5,9 prósent, telst lágt í alþjóðlegum samanburði.
Hagnaður samstæðunnar á fyrri helmingi ársins 2018 nam 5,0 milljörðum króna og arðsemi var 4,7% samanborið við hagnað 10,5 milljarða króna og arðsemi 9,7% á sama tímabili 2017.
Heildareignir námu 1.174,8 milljörðum króna í lok júní 2018 samanborið við 1.147,8 milljarða króna í árslok 2017 og eigið fé hluthafa bankans nam 206,9 milljörðum króna, samanborið við 225,6 milljarða króna í árslok 2017.
Eiginfjárhlutfall bankans var 21,9% í lok júní en var 24,0% í árslok 2017. Hlutfall almenns eiginfjárþáttar 1 nam 21,8%, samanborið við 23.6% í árslok 2017, að því er segir í tilkynningu bankans til kauphallar.