Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs-og landbúnaðarráðherra vinnur að frumvarpi þar sem Fiskistofu verður heimilt að sinna rafrænni vöktun á löndun og fiskveiðum. Þetta kemur fram í drögum að frumvarpi Kristjáns sem birt er á vef Stjórnarráðsins.
Samkvæmt drögunum er frumvarpið samið til þess að auka traust á fiskveiðistjórnunarkerfinu. Reglulegar vísbendingar og upplýsingar um að afla sé landað framhjá vigt hafi komið fram, en einnig hafi verið haldið fram að brottkast eigi sér stað í einhverjum mæli á Íslandsmiðum þótt niðurstöður rannsókna sýni að það sé ekki í miklum mæli. Frumvarpið hefur verið unnið út frá tillögum fengnum frá Fiskistofu og umsögn Persónuverndar.
Vöktun í höfnum og skipum
Með frumvarpinu yrði komið á fót rafrænt vöktunarkerfi í löndunarhöfnum sem fylgist með löndun, flutningi og vigtun afla á hafnarvog. Að viktun lokinni yrði svo niðurstaðan send Fiskistofu með rafrænum hætti.
Enn fremur yrði öll skip sem stunda veiðar í atvinnuskyni í fiskveiðilögsögu Íslands að hafarafrænt myndavélakerfi sem fylgist með veiðum og vinnslu afla, auk þess sem eftirlitsmenn Fiskistofu skuli hafa aðgang að upplýsingum úr myndavélakerfinu með rafrænum hætti.
Drónaeftirlit
Eftirlitsmönnum Fiskistofu verði einnig heimilt að nota fjarstýrð loftför, eða svokallaða dróna, í eftirlitsstörfum sínum, en samkvæmt athugasemdum við frumvarpið hefur stofnunin nú þegar nýtt sér dróna við eftirlit með ólöglegum netaveiðum göngusilungs í sjó.
Heimild Fiskistofu til notkunar á slíkum tækjum hefur ekki verið lögfest, en í fyrri störfum hafa þau verið notuð í samráði við Persónuvernd.