Gylfi Zoega, prófessor og nefndarmaður í Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands, telur lítið svigrúm til almennra launahækkana og blikur séu á lofti í ferðaþjónustu í landinu. Hún geti orðið fyrir „áfalli“ og það leitt út í hagkerfið.
Hann segir vöxt greinarinnar hafa verið stóra ástæðu þess að kaupmáttur hafi vaxið hratt og launaskrið átt sér stað.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í ítarlegri grein Gylfa sem kemur til áskrifenda Vísbendingar á föstudaginn. Gylfi er fastur penni í ritinu.
„Lítið svigrúm er til launahækkana. Raungengi skilgreint sem laun hér á landi sem hlutfall af launum í viðskiptalöndum hefur ekki verið jafnhátt í ein 30 ár og fyrir 30 árum voru laun einungis tímabundið há í kjölfar kjarasamninga sem voru út í hött. En nú er meiri innistæða fyrir lífskjörunum en hún byggist að miklu leyti á vexti ferðaþjónustu undanfarin ár. Nafnlaun hafa vaxið um 35% síðustu fjögur ár og kaupmáttur launa um 25% á sama tímabili.
Ísland er orðið svo dýrt vegna þessara launahækkana og sterkrar krónu að ferðaþjónustan getur á næstu mánuðum orðið fyrir áfalli. Hægt getur á fjölgun ferðamanna, þeir dvalið hér í styttri tíma, þeim fækkað lítið eða mjög mikið. Flugfélög geta einnig orðið fyrir áföllum á næstu mánuðum vegna mikils kostnaðar og mikillar samkeppni. Það væri því óábyrgt að semja um miklar launahækkanir í haust. Og enn óábyrgara að stofna til verkfalla,“ segir Gylfi meðal annars í grein sinni.
Hægt er að gerast áskrifandi að Vísbendingu hér.