Búum með sauðfjárrækt og kúabúum hefur farið fækkandi undanfarin áratug. Á árinu 2016 voru 1.477 bú með sauðfjárrækt sem aðalstarfsemi og hafði þeim fækkað um tæplega 14 prósent frá árinu 2008 þegar þau voru 1.712. Á árinu 2016 voru 631 kúabú með ræktun mjólkurkúa sem aðalstarfsemi og hafði þeim fækkað úr 707 búum frá árinu 2008 eða um tæplega 11 prósent.
Þetta kemur fram í frétt Hagstofunnar í dag.
Rekstrartekjur sauðfjárbúa voru um 13,1 milljarðar króna árið 2016, samkvæmt Hagstofunni, sem er það sama og rekstartekjurnar voru árið 2008 á föstu verðlagi.
Meðalstærðin vex
Meðalstærð kúabúa óx um 12,6 prósent, úr 37,1 mjólkurkú að meðaltali árið 2008 í 41,8 árið 2016. Velta kúabúa nam 23,9 milljarða króna árið 2016 samanborið við 22,9 milljarða króna árið 2008 á verðlagi ársins 2016 og hækkaði hún um 4,6 prósent.
Hagstofa Íslands tók saman upplýsingar um rekstur og efnahag þriggja greina landbúnaðar fyrir árin 2008 til 2016, það er fyrir sauðfjárbú, kúabú og önnur nautgripabú.
Af þeim þremur greinum sem hér er fjallað um er kúabúskapur skuldsettastur, samkvæmt Hagstofunni. Eigið fé var neikvætt um tæplega 1,2 milljarða króna í lok árs 2016, en hefur styrkst verulega á síðustu árum.
Stærð kúabúa gæti haft áhrif á byggðaþróun
Í frétt RÚV frá því í dag segir að mikill munur sé á framleiðslugetu kúabúa milli landshluta. Sigurgeir B. Hreinsson, framkvæmdastjóri Búnaðarsambands Eyjafjarðar segir í samtali við RÚV að þetta geti haft áhrif á byggðaþróun, erfitt sé að taka við og byggja upp lítil kúabú.
Fjallað er um þróun kúabúskapur á undanförnum árum í fréttinni en víða hefur verið fjárfest í nýjum fjósum og tækninýjungum. Búum hefur fækkað en framleiðslan aukist. Á fimm árum hefur meðalfjöldi kúa á hverju búi á Íslandi aukist um fimmtung og er nú 47 kýr.
Sigurgeir segir að það þurfi færri bændur en áður til að metta markaðinn. „Þegar meira er framleitt á hverjum bæ, vegna þeirrar tækni sem er komin og vinnuaðstöðu, þá hefur búunum fækkað stöðugt.“
„Í Eyjafirði hefur kúabúum fækkað úr 250 í 83 á 40 árum og má ætla að þau verði undir 70 eftir 10 ár. Á sama tíma hefur fjöldi á hverjum bæ nær tvöfaldast. Þó að kúabúum hafi almennt fækkað á Íslandi og þau stækkað, samhliða tækniframförum og aukinni framleiðslugetu, þá er mikill munur á milli svæða. Til dæmis eru að meðaltali 30 kýr á hverju búi í Vestur-Skaftafellssýslu og 31 í Suður Þingeyjarsýslu, en meðalfjöldinn í Skagafirði er 53 kýr og 57 í Eyjafirði,“ segir í fréttinni. Sigurgeir segir að uppbygging og stærð kúabúa geti haft áhrif á nýliðun bænda og byggðaþróun.