Starfshópur telur gildandi kerfi skattlagningar ökutækja og eldsneytis í meginatriðum einfalt og haganlegt og telur ekki skynsamlegt að það taki stakkaskiptum. Hins vegar leggur hópurinn til að gerðar verði breytingar sem taka tillit til þróunar sem á sér stað um þessar mundir á samsetningu og notkun ökutækja.
Þetta kemur fram í skýrslu sem starfshópur hefur unnið að varðandi endurskoðun skattlagningar ökutækja og eldsneytis sem hann hefur skilað til fjármála- og efnahagsráðherra. Frá þessu er greint í frétt ráðuneytisins í dag.
Hópurinn var skipaður í febrúar árið 2016 og var falið að að rannsaka núverandi fyrirkomulag og framkvæmd skattlagningar ökutækja og eldsneytis, leggja til breytingar á gildandi lögum og gera tillögu að framtíðarstefnu stjórnvalda í þessum efnum. Við endurskoðunina var hópnum gert að vinna að ákveðnum markmiðum.
Þau markmið voru að einfalda skattkerfið og gera það réttlátara. Að hafa samræmi og skilvirkni í skattkerfinu. Að spara orku og auka notkun innlendra orkugjafa, draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og skaðlegra efna í útblæstri ökutækja og móta framtíðarsýn um hlutdeild vistvænna ökutækja í skatttekjum ríkisins. Draga úr skattlagningu á öflun og eign á ökutækjum, tryggja ríkissjóði nægar skatttekjur meðal annars til að standa undir uppbyggingu og viðhaldi samgöngumannvirkja, og tryggja að fyrirkomulag skattlagningarinnar samræmdist ákvæðum laga um opinber fjármál.
Í skýrslu starfshópsins er meðal annars að finna umfjöllun um breytingar sem hafa orðið og eru að verða á mælingu og upplýsingagjöf evrópskra bifreiðaframleiðenda um losun og mengun frá ökutækjum. Þar sem fyrirsjáanlegt er að upplýsingar um koltvísýringslosun frá ökutækjum muni breytast eru settar fram tillögur sem ætlað er að draga úr líkum á að misræmi skapist við skattlagningu ökutækja.
Hér fyrir neðan má sjá stefnu skattlagningar ökutækja og eldsneytis 2020 til 2025.
Mun snerta atvinnulífið með ýmsum hætti
Enn fremur segir í skýrslunni að ljóst sé að tillögur starfshópsins munu snerta atvinnulífið með ýmsum hætti, meðal annars hvað varðar skatta á öflun ökutækja, notkun þungra ökutækja, eldsneytisgjöld og kolefnisskatt. Starfshópurinn sé meðvitaður um að öflugt atvinnulíf sé forsenda öflugs efnahagslífs og lífsgæða. Skattar hafi áhrif á hvata og verðmætaskapandi hegðun einstaklinga og fyrirtækja. Ætla megi að helstu áhrif tillagna starfshópsins á atvinnulíf geti annars vegar orðið neikvæð fyrir atvinnurekstraraðila þar sem innkaupsverð ökutækja og jarðefnaeldsneytis muni hækka.
„Skuldir þeirra geta hækkað til skemmri tíma litið í takt við hækkandi innkaupsverð ökutækja og afkoma versnað svo einhverju nemi vegna hærri rekstrarkostnaðar ökutækja. Gera má ráð fyrir að áhrifin komi hvað helst fram hjá fyrirtækjum sem fjárfesta í mörgum ökutækjum eða eru verulega háð notkun ökutækja í rekstri sínum. Hins vegar má einnig gera ráð fyrir að hærra innkaupsverð ökutækja hafi til skamms tíma jákvæð áhrif á eigið fé fyrirtækja vegna hækkandi verðmætis ökutækja sem verða þegar í þeirra eigu þegar tillögurnar koma til framkvæmda. Til lengri tíma litið má gera ráð fyrir að neikvæð áhrif tillagnanna gangi að verulegu leyti til baka í takt við samdrátt koltvísýringslosunar og minni eldsneytiseyðslu nýrra ökutækja,“ segir í skýrslunni.
Mun líka hafa áhrif á heimilin
Tillögur starfshópsins munu jafnframt snerta heimilin með beinum eða óbeinum hætti, samkvæmt skýrsluhöfundum. Þeir segja að áhrifin geti komið fram með óbeinum hætti í gegnum verðlag fyrir tilstuðlan áhrifa á atvinnulífið. Enn fremur komi áhrifin fram með beinni hætti í útsöluverði í gegnum skattlagningu á öflun ökutækja, eldsneytisgjöld og kolefnisskatt. Gera megi ráð fyrir að áhrifin muni verða neikvæð á ráðstöfunartekjur flestra heimila, en þó ekki allra, að minnsta kosti til skemmri tíma litið. „Skattar skapa hvata og ætla má að heimilin bregðist við mögulegum breytingum með því að draga úr losun. Því má ætla að áhrifin verði óveruleg til lengri tíma litið.“