„Íslenskt bankakerfi virðist vera dýrara í rekstri en sambærilegir bankar annars staðar á Norðurlöndum. Þannig er vaxtamunur – munur vaxta á innlánum og útlánum – meiri hér á landi. Fyllsta ástæða er til þess að leggja í rannsókn á þeim kjörum sem almenningur fær í viðskiptabönkum hér á landi, bæði vöxtum og þjónustugjöldum, og bera saman við sambærileg kjör annars staðar á Norðurlöndum.“
Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu Gylfa Zoega, prófessors í hagfræði og nefndarmanns í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands, fyrir stjórnvöld. Í skýrslunni fjallar hann um stöðu efnahagsmála, forsendurnar sem fyrir hendi eru í tengslum við kjaraviðræður og ýmis álitamál er tengjast þeirri stöðu sem uppi er komin.
Meðal þess sem Gylfji fjallar um er staða bankakerfisins á Íslandi, en íslenska ríkið á nú tvo banka af þeim þremur stærstu, Íslandsbanka og Landsbankann. Samanlagt eigið fé bankanna nemur um 430 milljörðum króna.
Gylfi segir að samkeppnisyfirvöld gætu framkvæmt rannsókn, sem miði að því að kanna kjörin sem almenningur fær í bankakerfinu.
„Samkeppnisyfirvöld gætu framkvæmt slíka rannsókn og gripið til aðgerða ef í ljós kæmi að samkeppni væri áfátt. Hugsanlegt er að sameining banka myndi lækka kostnað þeirra og bæta þau kjör sem viðskiptamönnum bjóðast. Tryggja þyrfti að minni kostnaður í bankakerfi lækkaði útlánsvexti og kostnað viðskiptavina en leiddi ekki einungis til aukins hagnaðar bankanna við fákeppni. Einnig þyrfti að huga að því hvaða áhrif fækkun banka gæti haft á samkeppni,“ segir Gylfi.