Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, segir að tekin hafi verið upp stefna í heilbrigðismálum hérlendis sem ekki sé hægt að kalla annað en „harðlínu sósíalisma“. Þar er hann að vísa í trega sitjandi stjórnvalda við að setja fé í einkarekna heilbrigðisþjónustu. Þetta kemur fram í grein sem hann skrifar í Fréttablaðið í dag.
Í þeirri stefnu felst, að mati Sigmundar Davíðs, að teknar hafi verið ákvarðanir sem séu óskynsamlegar og að jafnt og þétt sé horfið frá því sem best hafi reynst á Íslandi og erlendis. „Á meðan verið er að koma á sósíalíska kerfinu sendir ríkið sjúklinga í aðgerðir á einkareknum stofnunum í Danmörku og Svíþjóð og greiðir fyrir þrefalt það sem myndi kosta að framkvæma aðgerðirnar á Íslandi. Í sumum tilvikum fylgja jafnvel íslenskir læknar sjúklingunum til útlanda og framkvæma aðgerðina þar. Viðhorf þeirra sem ráða för virðist vera að um sé að ræða starfsemi sem teljist á einhvern hátt óhrein og megi því ekki fara fram innan landamæranna en hægt sé að líta fram hjá því og borga aukalega fyrir ef „glæpurinn” er framinn utan landsteinanna.“
Afleiðingin verði sú að fólk sem þarf á sérfræðilæknum að halda geti ekki fengið tíma hjá þeim og fyrir vikið þurfi sjúklingar annað hvort að þjást á biðlista í ár eða greiða sjálfir fyrir þá þjónustu sem þeir þurfi á að halda. „Sósíalisminn leiðir oft af sér ójafnræði,“ segir Sigmundur Davíð.
Hann telur einnig að góðgerðasamtök sem byggi að miklu leyti á sjálfboðavinnu fái einnig að „finna fyrir hinni marxísku endurskipulagningu“. Í því samhengi nefnir hann sérstaklega SÁÁ, sem býður upp á meðferðarúrræði fyrir fólk með áfengis- og vímuefnavanda. „SÁÁ eru ekki ríkisapparat og falla því utan hinnar nýju stefnu. Stefnu sem virðist miða að því að íslenska heilbrigðiskerfið verði eitt bákn sem starfar á einum stað og sá staður skal vera við Hringbraut í Reykjavík.“
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra sagði í síðustu viku, í samtali við Morgunblaðið, að ekkert fjármagn væri til staðar til að gera samninga um þjónustu við Klíníkina eða önnur einkarekin heilbrigðisfyrirtæki.
Þess í stað segist hún vera að vinna að öflugri forgangsröðum ásamt þeim stofnunum sem hljóta fjármagn frá heilbrigðisráðuneytinu til þess að hinir verst settu þurfi ekki að leita í dýrari þjónustu með almannafé vegna óralangs biðtíma.