Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, hefur sent frá sér yfirlýsingu, vegna þeirra orða sem komu fram í yfirlýsingu ASÍ fyrr í dag, þar sem orð Katrínar í Kastljósi um hækkanir kjararáðs voru sögð röng og villandi.
Í yfirlýsingu ASÍ sagði meðal annars: „Laun dómara og lægra settra stjórnenda yrðu hins vegar fryst og það er rétt sem forsætisráðherra sagði í gær að ákveðið samræmi milli þeirra og almenns launafólks næst að meðaltali við lok þessa árs. Það á hins vegar alls ekki við um hana sjálfa, aðra ráðherra, þingmenn, ráðuneytisstjóra og skrifstofustjóra ráðuneytanna. Það „ákveðna samræmi“ næst ekki fyrr en við lok árs 2021.
Það er illskiljanlegt hvers vegna forsætisráðherra, ólíkt forseta Íslands, tók ekki boltann í ljósi þeirra hagsmuna sem í húfi voru. Fyrir slíkum afgerandi ákvörðunum eru fordæmi í ákvörðunum forvera hennar þegar mikið hefur legið við og æðstu stjórnendum ríkisins hafði verið skammtað úr sameiginlegum sjóðum meira en öðrum.
Varðandi muninn á því hvort æðstu stjórnendur ríkisins fengju „frystingu“ eða yrði gert að þola „leiðréttingu og lækkun“ þá er um talsverðar fjárhæðir að ræða eða rúmlega 1,3 milljarða til ársloka 2021. Í meðfylgjandi töflu má annars vegar sjá þær umframgreiðslur sem þessir hópar höfðu þegar fengið í ársbyrjun 2018 m.v. úrskurði Kjararáðs í júlí og október 2016 og hins vegar hvað það kostar ríkissjóðs að frysta laun þessara hópa þar til „ákveðið samræmi“ næst, sem líklega verður í árslok 2021.“
Katrín segir í yfirlýsingu sinni, að horft sé til skýrslu starfshóps um málefni kjararáðs. Í henni segir orðrétt. „Ef ekki verður um frekari endurskoðanir að ræða á árinu 2018, þ.e. laun haldist óbreytt frá síðustu úrskurðum kjararáðs til ársloka 2018, yrði launaþróun kjararáðshópsins að meðaltali við þau mörk sem rammasamkomulagið setti og að framan hafa verið metin á bilinu 43-48%. Eins og fram kemur í skýrslunni er launaþróun innan hópsins mjög ólík. Til dæmis hafa héraðsdómarar fengið 35% hækkun en ráðherrar 64% hækkun á sama tímabili. Ef litið er til lengri tíma, t.d. starfstíma kjararáðs frá árinu 2006, blasir við önnur mynd en á því tímabili hafa laun þessara starfsgreina þróast með svipuðum hætti.“
Í starfshópi um málefni kjararáðs sátu þrír fulltrúar ríkisins og þrír fulltrúar launafólks og atvinnurekenda, auk Jóhannesar Karls Sveinssonar lögmanns.
Í yfirlýsingu sinni segir Katrín, að þær breytingar sem gerðar hafa verið á launum þeirra sem heyrðu undir kjararáð, sem nú hefur verið aflagt, muni miðast við tillögur fyrrnefnds starfshóps.
„Rétt er að halda til haga að fulltrúi ASÍ skilaði minnihlutaáliti um þessi mál í skýrslunni en í nefndinni sátu þrír fulltrúar ríkisins og þrír fulltrúar launafólks og atvinnurekenda auk Jóhannesar Karls Sveinssonar lögmanns sem var formaður nefndarinnar. Þær breytingar sem gerðar hafa verið og verða gerðar á fyrirkomulagi launa þeirra hópa sem áður heyrðu undir kjararáð byggja á niðurstöðu meirihluta nefndarinnar,“ segir Katrín.