Benedikt Gíslason, verkfræðingur og fyrrverandi varaformaður í starfshópi stjórnvalda um losun fjármagnshafta, verður kjörinn í stjórn Arion banka á hluthafafundi bankans sem fer fram næstkomandi miðvikudag.
Frá þessu er greint í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti, í dag.
Samkvæmt fréttinni mun Benedikt taka sæti í stjórninni í stað Jakobs Ásmundssonar, sem lét af störfum í vor. Benedikt mun taka sæti í stjórninni, meðal annars í umboði vogunarsjóðsins Taconic Capital, sem á 9,99 prósenta hlut í bankanum, að því er segir í frétt Markaðarins.
Benedikt hefur undanfarin tvö ár verið stjórnarmaður í Kaupþingi, sem á 32,67 prósenta eignarhlut í Arion banka í gegnum dótturfélag sitt Kaupskil, en hann mun hætta í stjórn eignarhaldsfélagsins á aðalfundi Kaupþings á morgun, fimmtudag.
Auk Kaupþings og Taconic Capital, sem fara í sameiningu með heildaratkvæðarétt sem er takmarkaður við 33 prósenta hlut, eru stærstu hluthafar Arion banka vogunarsjóðirnir Attestor Capital og Och-Ziff Capital og bandaríski fjárfestingarbankinn Goldman Sachs.