Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra hefur skipað Björn Bjarnason formann starfshóps sem falið verður það hlutverk að vinna skýrslu um aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu (EES).
Í svari við fyrirspurn Kjarnans staðfestir utanríkisráðuneytið þetta.
Björn er fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins og sat á þingi á árunum 1991 til 2009. Hann var menntamálaráðherra 1995 til 2002 og dóms- og kirkjumálaráðherra 2003 til 2009. Samkvæmt ráðuneytinu mun Björn bera almenna ábyrgð á skipulagi verkefnisins og vera talsmaður hópsins gagnvart stjórnvöldum.
Auk Björns sitja í hópnum þær Kristrún Heimisdóttir, lögfræðingur og fyrrverandi framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, og Bergþóra Halldórsdóttir, lögfræðingur hjá Samtökum atvinnulífsins og erindreki um samstarf atvinnulífsins og utanríkisþjónustunnar. Þá fær hópurinn starfsmann sem hefur aðsetur í utanríkisráðuneytinu.
Í svari ráðuneytisins segir jafnframt að ástæður fyrir vali á formanni séu þær að Björn hafi setið á Alþingi um árabil og gegnt á þeim tíma ráðherraembættum. „Hann var á sínum tíma formaður Evrópunefndar Alþingis sem í mars 2007 sendi frá sér yfirgripsmikla skýrslu um á vettvangi EES og Schengen og um álitaefni varðandi hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu. Björn hefur auk þess víðtæka þekkingu á alþjóðamálum og eftir hann liggja margvísleg skrif um þau efni,“ segir í svarinu.
Starfshópurinn fær tólf mánuði til skýrslugerðarinnar. Við vinnu sína skal starfshópurinn leita til helstu sérfræðinga á þeim sviðum sem skýrslugerðin tekur til og er heimilt að afla efnis í skýrsluna frá fræðimönnum og öðrum sérfræðingum utan hópsins.
Samkvæmt ráðuneytinu er með skýrslunni verið að koma til móts við beiðni frá hópi þingmanna um skýrslu utanríkisráðherra um kosti og galla aðildar Íslands að EES-samningnum sem samþykkt var á Alþingi fyrr á þessu ári.