Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, gagnrýnir heilbrigðisyfirvöld í grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag en þar segir hann að ótækt sé að fólk sé látið bíða vikum og mánuðum saman eftir þjónustu og á sama tíma sé grafið undir einkarekstri. Hann telur að einkarekstur sé mikilvæg og nauðsynleg stoð til að hægt sé að standa við fyrirheit um að allir eigi jafnan og greiðan aðgang að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag.
Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, furðar sig á skrifum Óla Björns en hann segir á Facebook-síðu sinni í dag að varað hafi verið við þessu í mörg ár á meðan Sjálfstæðismenn hafi nokkurn veginn alltaf verið í stjórn.
Er Óli Björn Kárason eitthvað að grínast? Það er búið að vara við þessu í mörg ár á meðan sjallar hafa nokkurn vegin...
Posted by Björn Leví Gunnarsson on Wednesday, August 29, 2018
Óli Björn segir að Íslendingar geti verið hreykin af heilbrigðiskerfinu, sem þrátt fyrir alla sína galla sé meðal þess besta sem þekkist í heiminum. „Við höfum byggt upp þjónustu þar sem reynt er að fremsta megni að tryggja jafnan aðgang landsmanna óháð efnahag. Tvöfalt heilbrigðiskerfi, þar sem hinir efnameiri geta keypt betri og skjótari þjónustu hefur verið eitur í beinum okkar.“
Hann segir jafnframt að yfirgnæfandi meirihluti Íslendinga líti svo á að í gildi sé sáttmáli – sáttmáli þjóðar sem ekki megi brjóta. Að Íslendingar hafi sammælst um að fjármagna sameiginlega öflugt heilbrigðiskerfi þar sem allir geta notið nauðsynlegrar þjónustu og aðstoðar án tillits til efnahags eða búsetu. Hann óttast að það sé að molna hratt undan sáttmálanum.
Óli Björn telur enn fremur að þingmenn og ráðherrar geti ekki virt að vettugi þau varnaðarorð sem ómi. Fjölbreytt rekstrarform, nýsköpun og nýliðun sé ekki aðeins spurning um jafnræði og tryggan aðgang allra að heilbrigðisþjónustu heldur atvinnufrelsi heilbrigðisstarfsmanna og öryggi sjúklinga.
“Hugsjónin sem liggur að baki íslenska heilbrigðiskerfinu um aðgengi allra að góðri og nauðsynlegri þjónustu verður merkingarlaus þegar almenningur situr fastur á biðlistum ríkisins og horfir á þá efnameiri kaupa þjónustu einkaaðila. Óskilgetið afkvæmi ríkisvæðingar allrar heilbrigðisþjónustu er tvöfalt kerfi,“ skrifar hann.