Ljósmæðrafélag Íslands segir úrskurð gerðardóms mikil vonbrigði í yfirlýsingu sem félagið sendi frá sér í dag. Félagið fagnar því að gerðardómur, sem skipaður var af ríkissáttasemjara til þess að fjalla um launasetningu ljósmæðra, hafi skilað niðurstöðu en telur aftur á móti að úrskurður gerðardóms feli ekki í sér nýtt mat á verðmæti starfs ljósmæðra, eins og væntingar hafi verið um.
Samkvæmt niðurstöðu gerðardóms skal kandídatsgráða ljósmæðra metin með sama hætti og hjá hjúkrunarfræðingi með sérnám. Þá skulu nemar fá laun. Í niðurstöðunni segir jafnframt að ljósmæður í svonefndu klínísku starfi eigi að vera tveimur launaflokkum ofar en hjúkrunarfræðingar sem ekki hafa sérmenntun í starfi.
Nefnt er sérstalega að laun skuli fara til nema í faginu frá og með 1. september, en laun til nema á síðasta starfsári skulu miðað við 25 vikna starf.
„Gerðardómi var ætlað að meta og verðleggja störf ljósmæðra með tilliti til menntunar, ábyrgðar, álags og inntaks starfs. Líkt og tekið er fram í greinargerð með úrskurðinum eru tímalengd náms ljósmæðra sambærilegt við nám lækna og tannlækna. Hér er um að ræða fagfólk sem á það sameiginlegt að sinna sjálfstæðri greiningu og meðferð og bera mikla faglega ábyrgð,“ segir í yfirlýsingu ljósmæðra.
Ljósmæðrafélagið átti von á afdráttarlausri niðurstöðu sem væri til þess fallin að skera úr um ágreining milli ljósmæðra og ríkisins hvað varðar verðmæti starfsins og kjaramál stéttarinnar. „Í stað þess felur samantekt gerðardóms í sér ýmsar tillögur og ábendingar um atriði eins og vinnutíma, starfsþróun og þátttöku í tilraunaverkefnum. LMFÍ bendir á að þessi atriði hafa verið til umræðu á samningstímanum án árangurs. Þá telur LMFÍ að gerðardómur sé að varpa ábyrgð sinni yfir á aðra þegar hann bendir á að líklegt sé að jafnlaunavottun og starfsmat komi til með að formfesta kröfur sem gerðar eru til ljósmæðra.“
Félagið fagnar því að ljósmæðranemar fái nú greitt fyrir starfsnám sitt en telur það þó ekki kjarabót fyrir starfandi ljósmæður og bendir á að ljósmæðranemar eru ekki félagsmenn í LMFÍ. Það veki því nokkra furðu að gerðardómur hafi tekið afstöðu til þess nú.