Flugfélagið WOW Air reiknar með að ljúka skuldabréfaútgáfu upp á 6 til 12 milljarða íslenskra króna í þessari viku, samkvæmt heimildum Kjarnans.
Reiknað er með að lokaniðurstaða í útboðinu, sem formlega hófst í lok síðustu viku, liggi þá fyrir, en markmiðið er að fjármagna félagið til næstu 18 til 24 mánaða fyrir skráningu þess á markað, fjármagna starfsemina á nýjan leik og halda áfram vexti félagsins, sem hefur verið ævintýri líkastur á undanförnum árum.
Stjórnvöld hafa fylgst náið með gangi mála, eins og greint hefur verið frá í fréttaskýringum Kjarnans, enda er litið svo að rekstur flugfélaganna beggja, WOW Air og Icelandair, hafi kerfislægt mikilvægi fyrir hagkerfið og að fall félaganna eða miklir erfiðleikar, geti haft keðjuverkandi neikvæð áhrif fyrir ferðaþjónustuna.
Í fjárfestakynningu WOW Air kemur fram að hlutdeild félagsins á Keflavíkurflugvelli hafi verið 37 prósent í fyrra, en heildarfjöldi erlendra ferðamanna hér á landi á síðasta ári var um 2,7 milljónir manna.
Skilmálar í skuldabréfaútgáfu WOW Air hafa breyst nokkuð frá upphaflegri kynningu fyrir fjárfesta, og er gert ráð fyrir að fjárfestar geti eignast hlut í félaginu, og fái 20 prósent afslátt á hlutafé í félaginu við skráningu á markað.
Fjárfestar fá kauprétt að hlutafé í WOW air á 20 prósenta afslætti þegar félagið fer á markað, miðað við skráningargengi á þeim tíma sem fyrirhuguð skráning mun fara fram. Afsláttur verður 20 prósent ef skráningin verður innan tveggja ára en 25 prósent ef hún fer fram eftir þann tíma.
Mats Hegg Møllerop, einn starfsmanna Pareto sem hefur yfirumsjón með útgáfunni, sendi fjárfestum upplýsingar um uppfærða skilmála útgáfunnar, snemma morguns 31. ágúst síðastliðinn. Áframhald hefur síðan verið á kynningum fyrir fjárfestum, en erlendir fjárfestar hafa þegar sýnt útgáfunni áhuga og hafa einhverjir skuldbundið sig til þátttöku.
Íslenskir fjárfestar, lífeyrissjóðir, sjóðstýringarfélög, bankar og einkafjárfestar, hafa einnig fengið kynningar, eins og greint hefur verið frá, en áhugi hefur ekki verið mikill úr þeim ranni.
Rekstur WOW Air hefur gengið erfiðlega undanfari misseri og var tap félagsins 2,3 milljarðar í fyrra, og um 45 milljónir Bandaríkjadala, jafnvirði um 5 milljarða króna, á tólf mánaða tímabili frá júní í fyrra til júní á þessu ári.
Eiginfjárhlutfall félagsins var komið undir 5 prósent í júní, en frá þeim tíma hefur hlutaféð verið aukið með umbreytingu á kröfum í hlutafé. Fjármögnun félagsins nú er því lífsnauðsynleg félaginu.
Skúli Mogensen er bæði eigandi félagsins og forstjóri.