Rekstrarsamningur Frjálsa lífeyrissjóðsins við Arion banka verður ekki gerður opinber, þar sem stjórn sjóðsins telur það ekki heimilt og ber við trúnaði.
Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag, en Hróbjartur Jónatansson hrl. hefur lagt fram beiðni fyrir Héraðsdóm Reykajvíkur þess efni að sjóðnum verði skylt að afhenda honum samninginn.
Þar að auki hefur hann óskað eftir því að sjóðurinn afhendi þær fundargerðir stjórnar þar sem ákvarðanir varðandi fjárfestingu og lánveitingar í tengslum við kísilmálmverksmiðjuna í Helguvík voru ræddar og ákveðnar. Sjóðurinn tapaði milljarði á fjárfestingum í kísilveri United Silicon en Arion banki, sem tapaði tæplega tíu milljörðum, vinnur að því að koma eignum í verð.
Gagnrýnir Hróbjartur í beiðni sinni til héraðsdóms þá ákvörðun stjórnarinnar að afhenda honum ekki rekstrarsamninginn enda leiði það til þess að efni hans sé „aðeins kunnugt stjórnarmönnum sjóðsins, sem flestir sitja fyrir tilskipan og með velþóknun Arion banka hf., en almennir sjóðfélagar hafa enga vitneskju um efni hans“, eins og orðrétt segir í umfjöllun Morgunblaðsins í dag.