Ef persónuafsláttur yrði hækkaður þannig að skattleysismörk atvinnutekna yrðu 300 þúsund krónur á mánuði myndu tekjur ríkissjóðs skerðast um 149,3 milljarðar króna. Þar af yrðu 100,4 milljarðar króna vegna lækkunar tekjuskatts og 48,9 milljarðar króna vegna greiðslu útsvars frá ríki til sveitarfélaga. Þetta kemur fram í svari Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, við fyrirspurn Guðmundar Inga Kristinssonar, þingmanns Flokks fólksins, um lækkun tekjuskatts.
Í svarinu kemur líka fram að álagning tekjuskatts einstaklinga á tekjur ársins 2017 hafi numið 168,6 milljörðum króna. Tekjuskatturinn myndi því rýrna um 89 prósent ef persónuafsláttur yrði hækkaður upp að 300 þúsund krónum. „ Þeim sem ekki greiða neinn tekjuskatt eða útsvar mundi fjölga úr rúmlega 42 þúsund í 119 þúsund. Þeim sem ekki greiða ríkissjóði neinn tekjuskatt mundi fjölga úr 78 þúsund í 171 þúsund. Þeim sem greiða tekjuskatt til ríkisins mundi að sama skapi fækka úr 220 þúsund í 126 þúsund eða um 42 prósent.“
Skattur á millitekjur yrði 77,69 prósent
Bjarni segir líka að ef skerðing persónuafsláttar myndi hefjast við 300 þúsund krónur, en að ríkissjóður ætti samt að vera jafnsettur tekjulega séð þrátt fyrir hina miklu hækkun persónuafsláttar, þá myndi skattur á tekjur á bilinu 300-561.072 krónur vera 77,69 prósent. Við síðustu álagningu voru 107.237 framteljendur með tekjur á því bili. „Það þýðir að 77,69 prósent af hverri krónu í tekjuskattsstofn sem unnið er fyrir á því tekjubili renna í ríkissjóð, en einungis 22,31 prósent til launþegans. Þó að jafnstaða næðist við slíkt fyrirkomulag ykjust álögur á launþega um 33,7 milljarða kr. sem færast til sveitarfélaganna í formi persónuafsláttar til útsvars frá ríkinu. Álögur á launþega með meira en 300.000 kr. í tekjuskattsskyldar tekjur á mánuði ykjust þannig um 183 milljarða kr. á ársgrundvelli[...]Engan veginn er hægt að ganga út frá því að auknar ráðstöfunartekjur hinna tekjulægri en minni tekjur hinna tekjuhærri mundu leiða af sér jafnar tekjur ríkissjóðs af óbeinum sköttum, svo sem virðisaukaskatti og vörugjöldum. Þannig er hægt að segja með þónokkurri vissu að ekki sé til nokkur sú nálgun sem skilaði ríkissjóði jafnstöðu miðað við gefnar forsendur.“
Kostnaður við skattalækkun 14,7 milljarðar
Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar komu fram áform um að lækka neðra skattþrepið um eitt prósent. Í svarinu segir að áætlað sé að slík aðgerð muni hafa í för með sér 13,8 milljarða króna hækkun ráðstöfunartekna fyrir launþega í heild. Samanlagður kostnaður ríkissjóðs vegna aðgerðarinnar er þó áætlaður hærri, eða 14,7 milljarðar króna.
Til þess að hækkun á persónuafslætti hefði í för með sér 13,8 milljarða króna hækkun ráðstöfunartekna fyrir skattgreiðendur í heild hefði „þurft að hækka persónuafslátt um 5.301 kr. á mánuði umfram það sem hann var árið 2017 í 58.208 kr. á mánuði. Það fyrirkomulag hefði hins vegar haft í för með sér meira tekjutap fyrir ríkissjóð vegna þeirra áhrifa sem slík breyting hefði haft á nýtingu persónuafsláttar til greiðslu útsvars svo sem nefnt var hér að framan. Heildartekjutap ríkissjóðs hefði verið 16,4 milljarðar kr., eða 2,6 milljörðum kr. meira en samanlagður ábati launþega.“