Evran kostar nú 131 krónu en fyrir um fimm mánuðum var hún í kringum 120. Bandaríkjadalur kostar nú 113,5 krónur en kostaði tæplega 100 krónur snemma í vor. Þá kostar pundið nú tæplega 150 krónur, en var í vor nálægt 130.
Gengi krónunnar gagnvart helstu myntum hefur veikst nokkuð að undanförnu og nemur veikingin um 5 prósentum, gagnvart evru og Bandaríkjadal, sé miðað við síðustu sex viðskiptadaga á fjármálamarkaði.
Í dag veiktist krónan um 1,31 prósent gagnvart evru og tæplega 1 prósent gagnvart Bandaríkjadal.
Sé litið til sögulegrar þróunar telst raungengi krónunnar sterkt um þessar mundir. Þjónusta er dýr í alþjóðlegum samanburði, og það sama má segja um ýmsar vörur.
Mest veiktist krónan í dag gagnvart norsku krónunni, eða um 1,8 prósent. Norska krónan kostar nú 13,5 krónur.