Spölur stefnir að því að afhenda Vegagerðinni Hvalfjarðargöng til eignar og rekstrar sunnudaginn 30. september næstkomandi. Innheimtu veggjalds yrði þá hætt föstudaginn 28. september. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu.
Stjórn Spalar hefur tilkynnt hluthöfum félagsins þessa ákvörðun sína en tekur jafnframt fram að tímasetningin sé kynnt að þeim forsendum gefnum að Ríkisskattstjóri fallist á tiltekna meðferð á skattalegri afskrift ganganna og í öðru lagi að Samgöngustofa skili fyrirvaralausri úttekt á göngunum í aðdraganda eigendaskiptanna.
Samkvæmt tilkynningunni greindi samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið stjórn Spalar þann 7. maí síðastliðinn frá því að ríkið myndi ekki yfirtaka félögin sem eiga og reka göngin, líkt og rætt hafði verið um áður í samskiptum Spalar við fjármálaráðuneytið, fyrst á árinu 2009. Slík útfærsla á afhendingu ganganna hefði meðal annars áhrif á reikningshaldslegar afskriftir mannvirkisins.
Mun gera upp við viðskiptavini sína
Jafnframt kemur fram í tilkynningunni að í júní síðastliðnum hafi stjórn Spalar leitað álits Ríkisskattstjóra á hvernig fara skyldi með skattalega afskrift ganganna og hugsanlega skattlagningu Spalar á árinu 2018. Svar hafi ekki borist við erindinu en þess sé vænst að viðunandi botn fáist í málið í tæka tíð svo unnt sé að afhenda göngin í lok september.
Spölur mun á næstu mánuðum gera upp við viðskiptavini sína. Fyrirtækið mun taka við veglyklum gegn 3.000 króna skilagjaldi, taka við og endurgreiða ónotaða afsláttarmiða og greiða út inneignir á áskriftarreikningum notenda veglykla.
Frestur til 30. nóvember að skila veglyklum
Samkvæmt fyrirtækinu hafa viðskiptavinir frest til 30. nóvember næstkomandi til að skila veglyklum og afsláttarmiðum.
„Í ljósi þess að uppgjörsmálin skipta tugum þúsunda áskilur Spölur sér lengri frest en 30 daga til að afgreiða þau öll. Starfsfólk á skrifstofu félagsins vinnur að uppgjöri og frágangi til loka ársins og sumir fram á nýtt ár.
Spölur sendir ekki lengur út reikninga til viðskiptavina sinna vegna áskriftarferða. Þeir sem hafa nýtt alla inneignir sínar á áskriftarreikningum fá reikning í október fyrir ferðum sínum í september,“ segir í tilkynningunni.