Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, sagði í stefnurðu sinni í dag, að Íslendingar ættu að sækja fram með hugvitið að vopni. Hún sagði framtíð Íslands bjarta með ungu kynslóðina í fararbroddi. „Við eigum að byggja á þeirri fjölbreytni og þeim gildum lýðræðis og mannréttinda sem við höfum haft í heiðri í þessari sögu allri. Og við eigum að sækja fram, sækja fram með því að rækta hugvitið, skapa nýja þekkingu og tryggja að hér verði samheldið, fjölbreytt og kærleiksríkt samfélag þar sem við lifum fram í sátt við umhverfið og tryggjum sterkan efnahag og jöfnuð,“ sagði Katrín.
Loftslagsmál í fyrirrúmi
Hún lagði enn fremur áherslu á það í ræðu sinni að ríkisstjórn hennar hefði loftslagsmálin í fararbroddi. Metnaðarfull áætlun væri komin fram sem yrði fylgt eftir af festu. „Ríkisstjórnin kynnti í fyrradag fyrstu áfangana í metnaðarfullri aðgerðaáætlun í loftslagsmálum. Eins og kunnugt er hafa orðið straumhvörf í fjárveitingum til umhverfismála. Aðgerðaáætlunin mun útfæra hvernig þessir fjármunir verða nýttir. Þar mun landgræðsla, skógrækt og endurheimt votlendis verða fyrirferðarmikil. Annar stór áfangi eru orkuskipti í samgöngum þar sem stórátak verður í uppbyggingu fyrir rafbíla og rafhjól og sett niður tímaáætlun um að ekki verði fluttir inn nýir bílar sem ganga fyrir bensíni eða olíu eftir 2030. Við Íslendingar höfum sett okkur það markmið að verða kolefnishlutlaus ekki seinna en árið 2040 og þessir fyrstu áfangar sýna gjörla að okkur er full alvara með því verkefni. Ég sé fyrir mér að umhverfis- og loftslagsmál verði eitt af flaggskipum okkar utanríkisstefnu, rétt eins og kynjajafnréttismálin eru þegar orðin, og Ísland, þó að við séum ekki stór, geti þar með haft áhrif til góðs í alþjóðasamfélaginu,“ sagði Katrín.
Lægri vextir og betri kjör
Í ræðunni ræddi hún enn fremur um stöðu bankakerfisins, og sagði að vinna væri nú í gangi við gerð Hvítbókar um bankakerfið, þar sem þyrið fjallað um ýmsar hliðar þess. Hún sagði endurskoðun á fjármálakerfinu þurfa að miðast við það að kerfið þjóni almenningi með hagkvæmum hætti. „Hvítbók um fjármálakerfið kemur út í haust þar sem greint verður hvað hefur vel verið gert í þeim málum á undanförnum árum og hvað má betur gera. Hluti af því verkefni er að greina kostnaðinn í íslenska fjármálakerfinu en vísbendingar eru um að hann sé meiri en til dæmis annars staðar á Norðurlöndum. Markmiðið er að hægt verði að lækka þann kostnað þannig að almenningur fái notið lægri vaxta og betri kjara,“ sagði Katrín.
280 stafir á Twitter
Hún gerði enn fremur traust á stjórnmálum að umtalsefni, og sagði það hafa hrapað niður við hrunið, og ólíklegt væri að það kæmi alfarið til baka aftur. Samfélagið hefði breyst mikið frá hruni, og þá ekki síst samskipti fólks. „Ljóst er að traust á stjórnmálum og stjórnsýslu dvínaði skarpt eftir hrun. Þetta traust hefur farið heldur vaxandi án þess að jafnast á við það sem áður var. Líklega verður traust á stjórnmálum og stjórnsýslu aldrei jafn mikið og það var skömmu fyrir hrun. Samfélagið hefur breyst, upplýsingastreymi er með allt öðrum hætti og samfélagsmiðlar hafa breytt stjórnmálaumræðu með róttækum hætti. Við sem munum þá tíð þegar mestu skipti að komast í kvöldfréttirnar með það sem sagt var um morguninn, finnst þetta vera bylting þar sem fréttir morgunsins eru oft algjörlega gleymdar um kvöldið. Þegar slík umskipti verða á miðlaumhverfinu má rifja það upp að því hefur verið haldið fram að miðillinn sníði skilaboðin að sér. Við sjáum þetta víða í nútímanum, jafnvel á sviði alþjóðasamskipta, þar sem valdamesti maður heims, sjálfur Bandaríkjaforseti, setur fram stefnu gagnvart öðrum ríkjum með 280 bókstöfum á twitter. Eins og við þekkjum úr sögunni þá geta slík umskipti breytt miklu um valdajafnvægið í samfélaginu,“ sagði Katrín.