Alls 15 þingmenn úr Sjálfstæðisflokki, Flokki fólksins og Miðflokki hafa lagt aftur fram þingsályktunartillögu um óréttmæti málshöfðunar Alþingis gegn ráðherrum og afsökunarbeiðni. Fyrsti flutningsmaður er Sigmundur Davíð Gunnlaugsson en á meðal annarra flutningsmanna er Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ritari Sjálfstæðisflokksins.
Í tillögunni felst að þingmennirnir vilja að Alþingi álykti að „rangt hafi verið að leggja fram tillögu til þingsályktunar um málshöfðun gegn ráðherrum hinn 28. september 2010 [...] Viðkomandi ráðherrar verðskuldi afsökunarbeiðni vegna þessa.“
Tillagan sem þingmennirnir 15 vilja að verði ályktað um snýst um höfðun sakamáls vegna refsiverðrar háttsemi í embættisfærslur á hendur Geir H. Haarde, sem var forsætisráðherra Íslands í aðdraganda hrunsins. Hún var samþykkt á sínum tíma með 33 atkvæðum gegn 30 í i september 2010.
Á meðal þeirra sem samþykktu ákæruna á hendur Geir í þinginu í september 2010 voru nokkrir ráðherrar sem nú sitja í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum. Þeir eru Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, Svandís Svavarsdóttir og Ásmundur Einar Daðason. Þau kaus Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, einnig með ákærunni.
Geir einn ákærður
Rannsóknarnefnd Alþingis komst að þeirri niðurstöðu í skýrslu sinni sem birt var í apríl 2010 að nokkrir íslenskir ráðherrar hefðu sýnt af sér vanrækslu í starfi í aðdraganda hrunsins. Þingmannanefnd sem skipuð var til að fjalla um skýrsluna komst að þeirri niðurstöðu í september 2010 að ákæra ætti fjóra fyrrverandi ráðherra, þau Geir H. Haarde, Árna Mathiesen, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og Björgvin G. Sigurðsson, fyrir Landsdómi vegna þessarar vanrækslu.
Þegar alþingismenn kusu um málið varð niðurstaðan hins vegar sú að einungis Geir var ákærður. Nokkrir þingmenn Samfylkingar ákváðu að segja já við ákæru á hendur ráðherrum Sjálfstæðisflokksins en hlífa sínum flokksmönnum.
Landsdómsmálinu lauk með því að Geir var fundinn sekur um einn ákærulið en þeir voru upphaflega sex. Honum var ekki gerð refsing. Geir kærði málsmeðferðina til Mannréttindadómstóls Evrópu. Það mál tapaðist í nóvember síðastliðnum.
Skipulagt eftir flokkspólitískum línum
Í greinargerð sem fylgir með þingsályktunartillögunni segir m.a. að ranglega hafi verið staðið að atkvæðagreiðslu um tillöguna um að ákæra Geir og að rangt hafi verið að samþykkja hana.
„Alþingi álykti enn fremur að þeir fyrrverandi ráðherrar sem upphaflega þingsályktunartillagan beindist gegn, og sá ráðherra sem loks var ákveðið að höfða mál gegn[...] verðskuldi afsökunarbeiðni frá hlutaðeigandi aðilum.
Flutningsmenn segja að niðurstaða landsdóms hafi sýnt að ekki hafi verið tilefni til ákæru, að ekki hefði verið gætt samræmis við beitingu laga um landsdóm þar sem lögunum hefur ekki verið beitt í öðrum tilvikum er varða stjórnmálalegar ákvarðanir og aðgerðir sem stefnt hafa hagsmunum ríkisins í hættu, að atkvæðagreiðsla um málshöfðun hafi borið þess merki þess að niðurstaða um það hverja skyldi ákæra „hefði annaðhvort verið tilviljanakennd eða skipulögð eftir flokkspólitískum línum“, og að lýðræðislegu stjórnarfari landsins standi ógn af því ef reynt sé að fá starfandi eða fyrrverandi stjórnmálamenn dæmda til fangelsisvistar vegna pólitískra aðgerða eða aðgerðaleysis „án þess að um hafi verið að ræða ásetning um brot“. Ýmsar stjórnmálalegar stefnur og ákvarðanir, eða aðgerðaleysi, geti verið skaðlegar hagsmunum ríkisins án þess að ætlunin hafi verið að valda tjóni. Slíkt álitamál beri að leiða til lykta í kosningum en ekki fyrir dómstólum.