Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins og fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins og forsætisráðherra, gagnrýndi ríkisstjórnarflokkanna harðlega í ræðu sinni á Alþingi í gær, eftir stefnuræðu Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra.
Hann beindi orðum sínum ekki síst að Framsóknarflokknum og sakaði flokkinn um að standa ekki við loforð og flýja stefnu sína í stórum málum. Sagðist hann gáttaður á flokknum og hvernig hann hefði haldið á málum, meðal annars þegar kæmi að slæmri stöðu bænda víða um landið. „Þrátt fyrir að hafa haft ýmsar áhyggjur af þessari ríkisstjórn trúði ég því þó að hún væri skárri kostur en sumir aðrir fyrir bændur og byggðir landsins. Það er öðru nær,“ sagði Sigmundur Davíð.
Þá sagði hann ríkisstjórnarflokkana hafa sýnt það að ríkisstjórnin snérist ekki um neitt annað en hana sjálfa. Hún væri stefnulaus og stæði ekki fyrir eitt né neitt. „Ríkisstjórn sem hefur aðeins starfað í níu mánuði hefur nú, með nýju fjárlagafrumvarpi, á 100 ára afmæli fullveldisins, slegið 100 ára met í útþenslu báknsins,“ sagði Sigmundur Davíð, og sakaði meða annars Sjálfstæðisflokkinn um að vinna þvert á eigin stefnu, ekki síst þegar kæmi að heilbrigðismálum.
Ríkisstjórnin væri að breyta heilbrigðiskerfinu eftir Marxískum áherslum, og brjóta upp kerfi sem hefði margsinnis verið valið eitt það besta í heimi af sérfræðingum. „Á sama tíma og læknaritið Lancet útnefndi íslenska heilbrigðisþjónustu þá bestu í heimi er heilbrigðisráðherrann í óða önn við að skipta kerfinu út fyrir marxísku leiðina í heilbrigðismálum. Það er kaldhæðni örlaganna að innleiðing þessa ný-sósíalíska kerfis skuli eiga sér stað undir verndarvæng Sjálfstæðisflokksins,“ sagði Sigmundur Davíð.