Hættan á að hver einstaklingur á Íslandi greinist með krabbamein er hætt að aukast og virðist raunar farin að minnka. Þetta segir Laufey Tryggvadóttir framkvæmdastjóra Krabbameinsskrár í samtali við Morgunblaðið.
Segir í fréttinni að þakka megi minnkandi reykingum, hollara mataræði og skimun fyrir forstigum leghálskrabbameins. Árlega greinast hér um 1.600 einstaklingar með krabbamein og hefur verið stöðug fjölgun frá upphafi krabbameinsskráningar árið 1954.
„Horfur krabbameinssjúklinga hafa batnað mjög mikið með tímanum. Nú eru á lífi yfir 15.000 manns sem hafa greinst með krabbamein, þar af stór hópur sem er læknaður,“ sagði Laufey við Morgunblaðið. Því er spáð að árið 2030 verði fjöldi krabbameinstilfella sem greinast árlega kominn yfir 2.000.
Skýringin fyrir þessu ,sem gefin er, er sú að Íslendingum fjölgar og að þjóðin er að eldast. Nýgengi krabbameina eykst með aldrinum. Dánartíðni af völdum krabbameina fer lækkandi hér á landi eins og víðast hvar í Evrópu. „Þar vega líklega þyngst stórstígar framfarir í meðferð sjúklinga, minni reykinga og skimun fyrir brjóst- og leghálskrabbameini,“ segir í fréttinni.