Þrátt fyrir að til standi að hækka vaxtabætur um þrettán prósent á árinu 2019 er ljóst að þær eru langt frá því að skipta þiggjendur slíkra því máli og þær gerðu eitt sinn. Áformað er að vaxtabætur verði 3,4 milljarðar króna á næsta ári, sem er um 400 milljónum krónum meira en þær voru árin 2017 og 2018.
Alls fengu 18.985 einstaklingar vaxtabætur í fyrra, eða 37.615 færri en fengu slíkar árið 2010. Á því ári fengu alls 56.600 fjölskyldur slíkar bætur og heildarumfang þeirra var 12 milljarðar króna, eða næstum fjórum sinnum meira en það er áætlað í fjárlögum fyrir árið 2019. Vert er þó að taka fram að 2010 var verið að greiða sérstaka vaxtaniðurgreiðslu sem var 0,6 prósent af skuldum íbúðarhúsnæðis til eigin nota, en þó að hámarki 200 þúsund krónur fyrir einstaklinga og 300 þúsund fyrir hjón eða sambúðarfólk. Þetta var gert vegna sérstakra aðstæðna í kjölfar hrunsins.
Tvöföldun á fasteignaverði
Lækkun á greiðslu vaxtabóta var sem fyrr skýrt fyrst og fremst af betri eiginfjárstöðu heimila. Á meðal þess sem skipti þar mál var nýting á séreignasparnaði til greiðslu íbúðaskulda. En auðvitað skipti mestu máli að verðbólga var stöðug, vextir á húsnæðislánum hafa aldrei verið lægri og að fasteignaverð hélt áfram að hækka hratt. Það hefur tvöfaldast frá því í lok árs 2010. Íbúð sem kostaði þá t.d. 30 milljónir króna kostar í dag 60 milljónir króna.
Innheimt fasteignagjöld í Reykjavík jukust um 34 prósent frá árinu 2010 og fram að síðustu áramótum. Vegna ársins 2010 innheimti Reykjavíkurborg tæplega 12,1 milljarð króna í fasteignagjöld. Í fyrra voru þeir 16,3 milljarðar króna. Ef tekjur borgarinnar af fasteignasköttum verða jafnháar á síðari hluta ársins 2018 og þær voru á fyrri hluta þess má ætla að þær verði 18,2 milljarðar króna í ár. Það myndi þýða að tekjur Reykjavíkurborgar vegna innheimtra fasteignaskatta hefðu aukist um 50 prósent frá árinu 2010.
Mikil fækkun á fáum árum
Vegna áranna 2011 og 2012 voru greiddar út almennar vaxtabætur upp á 8,6-8,7 milljarða króna árlega og 45-46 þúsund fjölskyldur fengu slíkar bætur. Vegna ársins 2013 voru almennar vaxtabætur um átta milljarðar króna og þiggjendur þeirra tæplega 42 þúsund fjölskyldur. Það vor var skipt um ríkisstjórn í landinu og við tók stjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks.
Vegna ársins 2014 voru greiddar úr vaxtabætur upp á sjö milljarða króna til 38 þúsund fjölskyldna. Ári síðar voru almennar vaxtabætur 5,2 milljarðar króna og þiggjendur þeirra 29.170 fjölskyldur. Þeim fækkaði um heil 21,3 prósent milli áranna 2014 og 2015.
Árið 2016 fengu 29.170 fjölskyldur vaxtabætur og fækkaði þá um 21,3 prósent milli ára. Í fyrra, þegar unnið var eftir fjárlögum nýrrar ríkisstjórnar, fengu, líkt og áður sagði, 18.985 fjölskyldur bæturnar sem var 23 prósent færri en árið áður.