Frjáls fjölmiðlun ehf., sem á rekur DV og fleiri fjölmiðla, tapaði 43,6 milljónum króna á þeim tæpu fjórum mánuðum sem félagið var starfandi á árinu 2017. Tekjur þess voru 81,4 milljónir króna frá því að félagið hóf starfsemi í september 2017 og fram að áramótum. Þetta kemur fram í ársreikningi félagsins sem nýverið var skilað inn til ársreikningaskráar.
Frjáls fjölmiðlun keypti í fyrrahaust fjölmiðlanna Pressusamstæðunnar: DV, DV.is, Eyjuna, Pressuna, Bleikt, Birtu, Doktor.is, 433.is og sjónvarpsstöðina ÍNN. ÍNN hefur síðan verið sett í þrot. Hluti skulda Pressunnar voru skildir eftir í henni og félagið svo sett í þrot. Alls var kröfum upp á 315 milljónir króna lýst í þrotabú Pressunnar. Skiptastjóri búsins viðurkenndi kröfur upp á 110 milljónir króna en hafnaði öðrum.
Eigandi Frjálsrar fjölmiðlunar er félagið Dalsdalur ehf. Eini skráði eigandi þess er Sigurður G. Guðjónsson lögmaður sem er einnig skráður fyrirsvarsmaður Frjálsrar fjölmiðlunar hjá Fjölmiðlanefnd.
Eigið fé neikvætt og há skuld við eiganda
Frjáls fjölmiðlun hóf starfsemi í september 2017. Heildartap fyrir skatta var 54,5 milljónir króna en skattinneign skilaði félaginu 10,9 milljón króna í tekjur sem töldu á móti.
Alls eru eignir Frjálsrar fjölmiðlunar metnar á 529 milljónir króna. Þar af eru óefnislegar eignir bókfærðar á 470 milljónir króna.
Skuldir félagsins, sem er ein stærsta einkarekna fjölmiðlasamsteypa landsins, voru 542 milljónir króna um síðustu áramót og var stofnað til þeirra á síðasta ári. Þar munar mest um 425 milljón króna skuld við eigandann, Dalsdal ehf. Sú skuld, sem virðist vaxtalaus, á að greiðast til baka á árunum 2018 til 2022, 85 milljónir króna á ári. Ekki kemur fram í ársreikningi Dalsdals ehf. hver lánaði því félagi fjármagn til að lána Frjálsri fjölmiðlun en þar segir að Dalsdalur eigi að greiða þeim aðila alla upphæðina til baka í ár, 2018.
Þá kemur fram í ársreikningi Frjálsrar fjölmiðlunar að ógreitt kaupverð eigna væri 53 milljónir króna í árslok 2017. Eigið fé félagsins var neikvætt um 13,3 milljónir króna um síðustu áramót, inngreitt hlutafé var 30 milljónir króna og félagið átti 14,6 milljónir króna í handbæru fé.