Jökull Gunnarsson framleiðslustjóri PCC BakkiSilicon hf. hefur verið ráðinn forstjóri félagsins í stað Hafsteins Viktorssonar sem gegnt hefur starfinu frá því í júní 2016. Hafsteinn mun áfram sinna verkefnum fyrir félagið. Í þeim felst meðal annars skoðun á möguleikum á stækkun verksmiðjunnar.
PCC BakkiSilicon fékk starfsleyfi til að hefja rekstur kísilmálmverksmiðju frá Umhverfisstofnun í nóvember í fyrra. í verksmiðjunni verður framleiddur hrákísill í nýbyggðri verksmiðju á iðnaðarsvæðinu á Bakka í Norðurþingi. Þar á að framleiða meira en 98,5 prósent hreinan kísill. Veitt var heimild til framleiðslu á allt að 66 þúsund tonnum á ári.
Fyrri ofn verksmiðjunnar, Birta, var gangsettur fyrir rúmum fjórum mánuðum. Hann framleiðir nú á fullum afköstum eftir að hafa átt við byrjunarörðugleika að stríða.
Síðari ofn verksmiðjunnar, Bogi, var gangsettur í lok ágúst.