Vísitala leiguverðs á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 2,9 prósent í ágúst samkvæmt nýbirtum tölum Þjóðskrár Íslands, en á sama tíma lækkaði húsnæðisverð um 0,1 prósent.
Frá því að mælingar hófust hefur hækkun leiguverðs umfram hækkun íbúðaverðs aldrei verið meiri milli mánaða, en íbúðaverð lækkaði um 0,1% í ágústmánuði.
Þetta kemur fram í umfjöllun Íbúðalánasjóðs um stöðuna á leigumarkaði.
Árshækkun leiguverðs, samkvæmt þinglýstum leigusamningum, mælist nú 8,8 prósent og hækkar frá fyrri mánuði þegar hún mældist 8,3 prósent. Til samanburðar þá er árshækkun íbúðaverðs í ágúst 4,1 prósent og hefur hún ekki mælst jafn lág síðan í maí 2011.
Það sem helst heldur lífi í hækkun fasteignaverðs þessi misserin er innkoma nýrra íbúða á markað, en þær eru margar hverjar með allt að 20 prósent hærra fermetraverði heldur en eldri íbúðir.