Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, segir að það sé útilokað að þeir fjölmiðlar sem séu til að mynda með opinber gjöld í vanskilum muni geta fengið endurgreiðslur frá ríkinu vegna rekstrar síns. Hún segir líka að verið sé að horfa á gagnsæi í eignarhaldi í þeim efnum. Þetta er meðal þess sem kom fram í viðtali Þórðar Snæs Júlíussonar, ritstjórna Kjarnans, við Lilju í þættinum 21 á Hringbraut sem frumsýndur var á miðvikudagskvöld.
Lilja kynnti í síðustu viku tillögur sem eiga að bæta rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla á Íslandi. Þær eru helst tvær, annars vegar endurgreiðslur á hluta ritstjórnarkostnaðar þeirra sem vinna fréttatengt efni, sem á að kosta 350 milljónir króna, og hins vegar að takmarka umsvif RÚV á auglýsingamarkaði þannig að tekjur þess dragist saman um 560 milljónir króna.
Í þættinum var hún spurð út í það hvort það muni fylgja því einhverjar kvaðir að fá umræddar endurgreiðslur. Til dæmis um skýrt og gegnsætt eignarhald, bæði beint og óbeint vegna fjármögnunar fjölmiðla, liggi fyrir, að öll opinber gjöld séu í skilum, að fyrir liggi einhver rekstrarsaga og lágmarksfjöldi stöðugilda svo að hver sem er geti ekki stofnað miðil og byrjað að þiggja endurgreiðslur.
Í viðtalinu er einnig rætt um það hvort að fullur stuðningur sé við tillögur hennar um að styrkja rekstur einkarekinna fjölmiðla með þeim hætti sem lagt hefur verið fram og m.a. vísað í grein Óla Björns Kárasonar sem birtist í Morgunblaðinu á miðvikudagsmorgun, þar sem andstöðu er lýst við tillögurnar. Lilja segir að ríkisstjórnin styðji tillögurnar.
Ekki eru mörg ár síðan að auglýsingamínútur RÚV voru takmarkaðar síðast og það leiddi einfaldlega til þess að mínútuverðið hækkaði og tekjur RÚV af samkeppnisrekstri stórjukust í kjölfarið. Í ár má ætla að þær verði nálægt 2,5 milljörðum króna en samkvæmt nýframlögðu fjárlagafrumvarpi mun RÚV fá 4,7 milljarða króna úr ríkissjóði á árinu 2019, rúmum hálfum milljarði króna meira en í ár.
Lilja hefur látið hafa eftir sér að RÚV verði bætt upp tekjutapið sem fyrirtækið verði fyrir vegna takmörkunar á auglýsingamarkaði. Aðspurð um hvort það hafi verið metið hvað RÚV þurfi að kosta til að geta sinnt því hlutverki sem fyrirtækinu er ætlað samkvæmt þjónustusamningi segir Lilja að það verði metið á næsta ári þegar þjónustusamningurinn verði tekinn til endurskoðunar. Þá verði einnig tekið tillit til rekstraraðgerða sem RÚV hafi ráðist í á borð við sölu byggingaréttar fyrir tæpa tvo milljarða króna og lengingu á lífeyrisskuldbindingum sem gera það að verkum að rekstrarsvigrúm núverandi stjórnenda eykst umtalsvert.
Hægt er að sjá þáttinn í heild sinni hér: