Eigandi Fréttablaðsins hefur leitað til Kviku banka um sölu á Fréttablaðinu, mest lesna dagblaði landsins. Samkvæmt frétt í blaðinu í dag er þetta gert vegna skilyrða sem Samkeppniseftirlitið setti þegar eigendurnir seldu tilteknar eignir í lok árs í fyrra. Þá fékk eigandinn, 365 miðlar, 30 mánuði, frá og með 8. október 2017, til að selja annað hvort Fréttablaðið eða hlut sem hann fékk afhentan í Sýn, fjarskipta- og fjölmiðlafyrirtækis sem skráð er á markað. Um komandi mánaðarmót hefur eigandinn því eitt og hálft ár til að ganga frá slíkri sölu til að skilyrðin séu uppfyllt.
Eigendurnir segjast ekki hafa tekið ákvörðun um hvor eignin sé seld en ljóst sé að það taki lengri tíma að selja óskráða eign en skráða, og því hafi þessi skref verið stigin nú.
Fréttablaðið var lengi hluti af stærsta einkareknu fjölmiðlasamsteypu landsins, 365 miðlum. Hún var brotin upp seint á síðasta ári þegar ljósvakamiðlar hennar, fjarskiptastarfsemi og fréttavefurinn Vísir voru seld til Vodafone á Íslandi, sem í dag heitir Sýn. Það félag tók við hinum keyptu eignum í desember 2017. Rekstur Fréttablaðsins og nýs fréttavefs, frettabladid.is, var í kjölfarið settur í felagið Torg ehf. sem er í eigu 365 miðla.
Í fréttinni segir enn fremur að 365 miðlar hafi hagnast um 907 milljónir króna fyrir skatt í fyrra. Ársreikningi fyrir það ár hefur ekki verið skilað inn til fyrirtækjaskráar. Raunar hefur 365 ekki skilað inn ársreikningi síðan fyrir árið 2015.